BREYTA

30. mars 1949

Eftirfarandi grein Jóns Böðvarssonar og Þorvarðar Helgasonar birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2008. Við leyfum okkur að endurbirta þessa grein hér á Friðarvefnum, sem og athugasemd Sveins Snorrasonar sem birtist einnig í Morgunbalðinu 1. júlí. Fáeinir menn sem tilheyrðu ekki mótmælendahópnum 30. mars 1949 gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar sem engum skaða ollu, en líklega er rétt að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu. Þessi nánast kyrri hópur var til lítilla vandræða – og hefði áreiðanlega leyst upp ef lögregla hefði tilkynnt niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og þar með gerðan hlut sem ekki þýddi lengur að mótmæla á þessum vettvangi. Að vísu voru sögð einhver orð í hátalara en þau voru óskýr, heyrðust illa og höfðu engin áhrif. Næst gerðist að dyr Alþingishússins opnuðust og út braust „hvítliðið“, öskrandi og veifandi kylfum. Grunlaust fólkið var fyrst felmtri slegið en snerist svo til varnar sem best það gat, bæði mótmælendur og stuðningsmenn samþykktarinnar, sem fjölmennir voru í hópnum, því þetta var aðför, fólki fannst sér misboðið. Eftir útrásina, árásina úr Alþingishúsinu, kom svo táragassprengja lögreglu, þá sveið í augu undan gasinu og smám saman leystist allt upp og Austurvöllur varð nær mannlaus eftir að flestir forðuðu sér. Þegar horft var til baka yfir atburðarásina kom í ljós mynstur, kerfi. Augsýnilega var stefnt að árekstri, óeirðum. Við fréttum seinna að forystumaður sósíalistaflokksins hefði kvöldið áður sett af stað upphringingar til flokksfólks og beðið það að hafa hægt um sig á morgun því í uppsiglingu væri ögrun (provocation). Hann þekkti slíkt frá námsárunum í Þýskalandi eftir fyrra stríð. Það var augljóslega „system i galskabet“ – sem til allrar hamingju virkaði illa. Á næsta ári verða 60 ár liðin frá þessum atburði. Hvernig væri ef ungir sagnfræðingar legðu nú saman og greindu ástæður, atburðarás og ekki síst dómana. Fyrir hvað voru menn dæmdir o.s.frv. Einhverjir „hvítliðanna“ lifa enn, við munum eftir tveimur skólabræðrum okkar úr MR. En áreiðanlega eru þeir fleiri sem enn anda – og gætu leyst gátuna um þjálfun „hvítliðanna“ eins og við kölluðum þá. JÓN BÖÐVARSSON, Lundarbrekku 8, Kópavogi. ÞORVARÐUR HELGASON, Safamýri 67, Reykjavík. 30. mars 1949 Blessaðir friðarboðarnir, Jón Böðvarsson og Þorvarður Helgason, rita í Morgunblaðinu í gær (26. júní sl. með samnefndri fyrirsögn) saman hrifnæma hugvekju um saklausan leik, fáeinna manna, „sem ekki tilheyrðu mótmælendahópnum 30. mars 1949, er þeir gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar, sem engum skaða ollu, en líklega er rétt, að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu. Þessi nánast kyrri hópur var til lítilla vandræða- og hefði áreiðanlega leyst upp ef lögregla hefði kynnt niðurstöðu atkvæða-greiðslunnar og þar með gerðan hlut, sem ekki þýddi lengur að mótmæla á þessum vettvangi.“ Getur það verið að þeir félagar fari hér með rétt mál, að lýsingar þeirra á atburðarás standist, að þeir hafi verið í aðstöðu til að greina að þá fáeinu gamansömu eggjamenn frá hinum raunverulega mótmælendahópi 30. mars 1949, og hafi þess vegna getað dregið þá ályktun að þessi raunverulegi mótmælendahópur hefði bara farið heim, ef hann hefði fengið fréttir af atkvæðagreiðslunni!? Hvorum hópnum skyldu þeir Jón Bö og Holli, eins og þeir voru þá kallaðir, hafa tilheyrt, gamansömu eggjakösturunum eða þeim raunverulegu mótmælendum? Spyr sá, er ekki veit. Ég hlýt að setja stórt spurningarmerki við atvikalýsingu þeirra. Veit ekki vegna þess, að einmitt á þeim tíma, sem þeir félagar, Jón og Þorvarður, lýsa gamansama eggja- moldarköggla- og grjótkastinu að unga fólkinu á gangstéttinni sem líklega leiddi til rúðubrots í húsinu, var ég sem þingritari ásamt Ólafi Jónssyni, frá Austvaðsholti, að rita fundargerð um eina dagskrármálið, atkvæðagreiðsluna. Skrifborð okkar þingritaranna var þá staðsett beint framan við forsetastól og þingskrifara, þar sem ræðupúlt þingmanna er staðsett í dag. Hitt veit ég, að áður en atkvæðagreiðslu og þingfundi var lokið, barst stærðar hraunhnullungur með miklu brothljóði gegnum rúðu að baki forsetastóls, flaug yfir stól forseta, en Guðs mildi að hann hæfði ekki forseta í höfuðið, en lenti síðan með miklu brauki á borðinu milli okkar Ólafs og þaðan út á gólf. Ég er ansi hræddur um að sá okkar sem fengið hefði hraunhnullunginn í hausinn hefði ekki þurft að kemba hærurnar. Hraunhnullungurinn var ekki ætlaður ungu fólki á gangstétt. Skeytinu var beint að Alþingi og bersýnilega ætlað að trufla störf þingsins með svipuðum hætti og reynt hafði verð kvöldið og nóttina áður. Sjálfsagt eiga sagnfræðingar framtíðarinnar eftir að fjalla heilmikið um 30. mars 1949. Þá verður þess þó að vænta að vandað verði til öflunar heimilda um þá atburði sem þar urðu, aðdraganda og ástæður þeirra, svo að afkomendur okkar fái sem skýrasta og raunsannasta mynd af því, sem þá gerðist, orsakir þess og afleiðingar. SVEINN SNORRASON, Faxatún 1 Garðabæ.

Færslur

SHA_forsida_top

STÖÐVIÐ STRÍÐSGLÆPINA Á GAZA!!

STÖÐVIÐ STRÍÐSGLÆPINA Á GAZA!!

-Mótmælafundur á Austurvelli, fimmtudaginn 13. júlí kl. 17:30 Félagið Ísland-Palestína boðar til mótmælafundar á …

SHA_forsida_top

Stríðsglæpum Ísraela á Gaza mótmælt

Stríðsglæpum Ísraela á Gaza mótmælt

-Mótmælafundur fimmtudaginn 13. júlí á Austurvelli Verið er að skipuleggja mótmæli vegna stríðsglæpa Ísraela á …

SHA_forsida_top

Bechtel, heimsins mesta stríðsgróðafyrirtæki

Bechtel, heimsins mesta stríðsgróðafyrirtæki

Bandarísk friðarsamtök hvetja til mótmæla við skrifstofur Bechtel 6.-9 . ágúst Sameinaða friðar- og …

SHA_forsida_top

Fyrirlestur Michel Chossudovsky í Norræna húsinu þriðjudaginn 11. júlí

Fyrirlestur Michel Chossudovsky í Norræna húsinu þriðjudaginn 11. júlí

Þann 11. júlí nk. verður hér í Reykjavík kanadíski hagfræðingurinn Michel Chossudovsky. Hann kemur til …

SHA_forsida_top

HM í Friðarhúsi

HM í Friðarhúsi

Leikið um 3ja sæti

SHA_forsida_top

Greinargerð Samtaka herstöðvaandstæðinga vegna viðræðna Bandaríkjanna og Íslands um brottför hersins

Greinargerð Samtaka herstöðvaandstæðinga vegna viðræðna Bandaríkjanna og Íslands um brottför hersins

Í dag, 7. júlí, er haldið áfram viðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda um brottför hersins. …

SHA_forsida_top

Var þörf á varnarliði?

Var þörf á varnarliði?

eftir Árna Björnsson Birtist í Morgunblaðinu 6. júlí 2006 ÞEGAR bandaríski herinn birtist …

SHA_forsida_top

Greinargerð Samtaka herstöðvaandstæðinga vegna viðræðna Bandaríkjanna og Íslands um brottför hersins

Greinargerð Samtaka herstöðvaandstæðinga vegna viðræðna Bandaríkjanna og Íslands um brottför hersins

1. Segjum upp herstöðvasamningnum! Allt frá því að herstöðvasamningurinn var gerður árið 1951 hefur þjóðin …

SHA_forsida_top

HM í Friðarhúsi

HM í Friðarhúsi

Undanúrslit

SHA_forsida_top

Stríðsglæpamaður snæðir að Bessastöðum

Stríðsglæpamaður snæðir að Bessastöðum

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands 26. júní segir svo: „George H. W. Bush, fyrrverandi …

SHA_forsida_top

Þættir úr sögu Þjóðvarnar 1945–1963

Þættir úr sögu Þjóðvarnar 1945–1963

eftir Sverri Jakobsson (Dagfari 1. tbl. 26. árg. (2000), bls. 28-39) Herstöð við …

SHA_forsida_top

HM í Friðarhúsi

HM í Friðarhúsi

Undanúrslit

SHA_forsida_top

Kæra lögð fram gegn George H.W. Bush

Kæra lögð fram gegn George H.W. Bush

Fréttatilkynning Reykjavík, 3. júlí 2006 Í dag lagði hópur fólks fram kæru við embætti Ríkislögreglustjóra …

SHA_forsida_top

Fræðsluerindi SHA

Fræðsluerindi SHA

Elías Davíðsson heldur erindi á almennum félagsfundi SHA um blóði drifinn forsetaferil George Bush eldri.

SHA_forsida_top

HM í Friðarhúsi

HM í Friðarhúsi

Fjórðungsúrslit