BREYTA

Ávarp flutt af Bjarna E. Guðleifssyni á Ráðhústorginu á Akureyri í lok friðargöngu á Þorláksmessu 2008

Góðir tilheyrendur. Stundum er hugtökum best lýst með andstæðum eða andheitum sínum. Andstæða ljóss er myrkur, andstæða hita er kuldi og andstæða friðar er stríð eða styrjöld. Friður er því ástand laust við átök og honum verður kannski best lýst með andstæðunni ófriði eða styrjöld. Hér mun ég tala um þrenns konar frið; heimsfrið, frið á milli manna og í þriðja lagi innri frið einstaklingsins, sálarfrið. I Fyrst er það heimsfriðurinn. Við höfum heyrt um tvær heimsstyrjaldir á nýliðinni öld og mörg okkar muna síðan eftir staðbundnum styrjöldum, Kóreu, Vietnam, Rúanda, Bosníu og enn geysa stríð í Palestínu, Írak og Afghanistan og í þessum þremur löndum eru innrásarherir sem ættu að hverfa heim. Það er skelfilegt að hugsa til allra þeirra milljóna manna og kvenna sem hafa látið lífið í þessum átökum, ég vil segja: að ástæðulausu. Einstaklingar með vonir og þrár eins og við, einstaklingar sem áttu bara eitt jarðlíf og það varð stutt og styrjöldinni að bráð. Og margir þeirra sem látast í átökum eru saklausir borgarar sem höfðu ekkert með átökin að gera. Enn fremur eru óteljandi þau mannslíf sem tapast í hungursneyðum sem eru afleiðingar átaka og nægir að nefna Darfúr í Súdan sem nýlegt dæmi. Oft er það gleymt um hvað menn byrjuðu að berjast, var það land, auðlind, fjármagn, trú, völd, andúð, kynþáttur eða menning? Allt eru þetta algjör aukaatriði og menn og þjóðfélagshópar eiga að geta lifað í sátt og samlyndi og leyst sín mál í góðu. Það er ekkert mál svo erfitt að það réttlæti manndráp. Eftir hverja styrjöldina á fætur annarri þá segja menn: „Aldrei aftur“, en samt gerist það aftur og aftur að hernaðarátök breiðast út. Við skulum leggja okkar af mörkum til að hjálpa stríðshrjáðu fólki og umfram allt að leggja okkar lóð á vogarskálar til að hindra styrjaldir, eða öllu heldur til að tryggja heimsfrið. Þrátt fyrir ýmis friðarráð og friðarverðlaun Nóbels og friðarsúlu á Íslandi þá hefur það ekki tekist. Við hneigjumst til að telja það hlutverk Sameinuðu þjóðanna að koma á friði og við bara hlustum á fréttirnar af voðaverkunum. En við eigum líka á þessu sviði verk að vinna á heimsvísu. Með þátttöku í friðargöngu sem þessari höfum við sýnt vilja í verki, samstöðu með þeim sem vilja koma á friði í heiminum. Nú er hugtakið hryðjuverk og hryðjuverkamaður í tísku. Gengur það jafnvel svo langt að við umhverfisverndarsinnar erum einu nafni kallaðir hryðjuverkamenn vegna þess að við höfum aðra sýn á framtíð landsins en stórvirkjanir og byggingu álvera. Og hryðjuverkalögum er óspart beitt svo sem við fengum að reyna frá Bretum í kreppunni. Mér hefur reyndar löngum þótt hryðjuverkalög afar hæpin og ganga allt of langt til dæmis ef menn eru settir í fangelsi vegna þess að þeir hafa bara hugsað sér að gera eitthvað. Og þessum mönnum er svo haldið föngnum langa hríð án dóms og laga. Ég óttast reyndar að svonefnd barátta gegn hryðjuverkum kunni að vekja upp fleiri nýja hryðjuverkamenn en hún eyðir. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi varar okkur við kjarnorkusprengjum og segir:
    Við refsum bjálfum, sem ræna og fremja svik, og rónum, sem neyta víns og gerast trylltir. En foringjar þjóða, sem framleiða geislaryk og fylla loftið eitri – þeir eru hylltir.
Ísland stendur ekki í neinum hernaðarátökum núna og ég var afar ánægður með það hvernig lokun herstöðvarinnar á Miðnesheiði reyndist ekki vera sú ógnun sem spáð var, heldur tækifæri, sem menn eru núna að nýta í þágu menntunar. Þetta var svolítið um heimsfriðinn. Kannski lýsti ég honum of mikið með andheiti sínu, styrjöldunum. Drápin og eyðileggingin í styrjöldunum er geigvænleg, og Halldór Laxness segir í ljóði sem hann nefnir Stríðið:
    Spurt hef ég tíu milljón manns sé myrtir í gamni utanlands:
og svo segir hann:
    Afturámóti var annað stríð undir grjótkletti forðum tíð, það var allt útaf einni jurt sem óx í skjóli og var slitin burt.
Þarna hugsar ljóðmælandinn til dóttur sinnar, hennar Ástu Sóllilju, sem hann sinnti ekki sem skyldi og missti því frá sér, og hann segir í framhaldinu:
    því hvað er auður og afl og hús ef engin jurt vex í þinni krús.
II Já við skulum hlúa að börnunum okkar og náunga okkar hver sem hann er. Út frá þessum orðum Halldórs Laxness skulum við í annan stað aðeins fjalla um frið milli manna, einstaklinga. Undir það heyrir til dæmis heimilisfriðurinn, sem við skulum leggja áherslu á að rækta. Að vísu ríkir kreppa hér á landi og menn eru reiðir og mótmæla og gera kröfur á strjórnvöld um ábyrgð og breytingu. Það er eðlileg og réttmæt krafa og kannski verður þessi nýja staða þjóðarbúsins til þess að þjappa okkur saman, þannig að við gerum okkur grein fyrir því að „auður og afl og krús“ er einskis virði „ef engin jurt vex í þinni krús“, það er ef við hlúum ekki að börnunum og náunganum. Við skulum stunda frið við alla menn þannig að lífsganga okkar verði samfelld gleði- og friðarganga. Það er ekkert ömurlegra en að vera í eilífu stríði við náungann og þá um leið við allt umhverfi sitt. III Og að lokum og í þriðja lagi nokkur orð um sálarfriðinn. Oft er sagt að við eigum að vera sátt við Guð og menn. Við höfum þegar rætt um nauðsyn þess að eignast frið við menn. Við getum auðveldlega eignast frið við Guð, sálarfrið, með því að snúa okkur til Guðs og biðjast fyrirgefningar á syndum okkar. Og aldrei verður boðskapurinn um frið augljósari en á jólunum. Þá minnumst við fæðingar frelsarans, hans sem frelsar okkur frá syndinni og englarnir á Betlehemsvöllum sögðu: „Friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.“ Síðar sagði frelsarinn, sem einnig var nefndur friðarhöfðingi: „Minn frið gef ég yður“ og gerir skýran greinarmun á friði milli manna og sálarfriðnum. Við skulum leitast við að stuðla að heimsfriði og friði manna á milli og taka með fögnuði á móti boðskap jólanna um frelsarann sem veitir frið þannig að hjá okkur ríki einnig friður Guðs, sálarfriður. Þá erum við sátt við Guð og menn. Ég þakka ykkur fyrir samveruna þessa stund og óska ykkur öllum gleðilegra jóla.

Færslur

SHA_forsida_top

Kertafleytingar í Reykjavík og á Akureyri

Kertafleytingar í Reykjavík og á Akureyri

Kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasakí þann 9. ágúst árið 1945. Þremur dögum fyrr …

SHA_forsida_top

Ávarp flutt við færeyska sendiráðið, 21. júlí 2021

Ávarp flutt við færeyska sendiráðið, 21. júlí 2021

Kæru félagar Ég er að safna sendiráðum. Hef enga tölu á þeim fjölda skipta sem …

SHA_forsida_top

Samstöðumótmæli með Færeyingum

Samstöðumótmæli með Færeyingum

Færeyskir hernaðarandstæðingar efna til mótmæla í Þórshöfn vegna áforma um að reisa á ný …

SHA_forsida_top

Ályktanir Landsfundar SHA 2021

Ályktanir Landsfundar SHA 2021

Ályktun um vígbúnað á norðurslóðum Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. maí 2021, varar við …

SHA_forsida_top

Hvað er á seyði í Hvíta-Rúss?

Hvað er á seyði í Hvíta-Rúss?

Miðvikudaginn 9. júní kl. 20:00 verður Valur Gunnarsson sagnfræðingur með fræðslufund í …

SHA_forsida_top

Gamall draugur lætur á sér kræla í Færeyjum

Gamall draugur lætur á sér kræla í Færeyjum

Á landsfundi SHA mætti góður gestur, í gegnum fjarfundarbúnað þó. Það var Högni Höydal leiðtogi …

SHA_forsida_top

Kjarnorkuveldunum mótmælt

Kjarnorkuveldunum mótmælt

Stöðvum vígvæðingu norðurslóða Í kvöld, 19. maí, munu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands setjast …

SHA_forsida_top

Landsfundur SHA 29. maí

Landsfundur SHA 29. maí

Vegna samkomutakmarkanna neyddumst við til þess að fresta landsfundi SHA sem átti að fara fram …

SHA_forsida_top

Landsfundi frestað

Landsfundi frestað

Vegna samkomutakmarkana neyðumst við til að fresta landsfundi SHA sem átti að fara fram á …

SHA_forsida_top

Landsfundur 2021 *Frestað*

Landsfundur 2021 *Frestað*

Landsfundur SHA verður í Friðarhúsi laugardaginn 27. mars n.k. Dagskrá er eftirfarandi: …

SHA_forsida_top

Andstaða við kjarnorkuvopn þvert á flokkslínur - áhugaverð tölfræði úr skoðanakönnun

Andstaða við kjarnorkuvopn þvert á flokkslínur - áhugaverð tölfræði úr skoðanakönnun

Í tilefni af því að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum hefur tekið gildi, …

SHA_forsida_top

Sameiginleg áskorun til íslenskra stjórnvalda að fullgilda samning SÞ um bann við kjarnorkuvopnum

Sameiginleg áskorun til íslenskra stjórnvalda að fullgilda samning SÞ um bann við kjarnorkuvopnum

Eftirtalin félög skora á íslensk stjórnvöld að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum …

SHA_forsida_top

Friðargöngu á Þorláksmessu aflýst

Friðargöngu á Þorláksmessu aflýst

Samstarfshópur friðarhreyfinga hefur ákveðið að ekki sé kostur á því að halda Friðargönguna að þessu …

SHA_forsida_top

Dagfari 2020

Dagfari 2020

Dagfari er kominn út og má lesa hér fyrir neðan. Hann er að þessu sinni …

SHA_forsida_top

Ályktun um afvopnun og forgangsröðun

Ályktun um afvopnun og forgangsröðun

Í ágústmánuði síðastliðnum tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún hefði varið níu milljörðum Bandaríkjadala til þróunar á …