BREYTA

Ávarp flutt við færeyska sendiráðið, 21. júlí 2021

Kæru félagar Ég er að safna sendiráðum. Hef enga tölu á þeim fjölda skipta sem ég hef staðið og mótmælt við bandaríska sendiráðið á Laufásvegi í ýmsum veðrum og af margvíslegum tilefnum oftar en ekki með gjallarhorn á vörunum að segja stórveldinu til syndanna. Ég hef staðið við rússneska sendiráðið – oftar en einu sinni og oftar en tvisvar - vegna stríðsreksturs og mannréttindabrota. Ég hef gengið að kínverska sendiráðinu – og staðið á tröppum þýska og breska sendiráðsins... gott ef ekki til að krefjast þess að þrjóturinn Pinochett yrði framseldur til dómstóls þar sem hann ætti von á maklegum málagjöldum. Ég hef flutt ræðu við norska sendiráðið þegar hingað komu í fyrsta sinn norskar herþotur að taka þátt í þeim fáránlegu orrustuflugæfingum sem kallast á fínu máli „loftrýmisgæsla“. Mig rámar meira að segja í mótmælastöðu við danska sendiráðið... þó sannast sagna muni ég ekki alveg hvað Danir gerðu af sér í það skiptið. Það er ekki hægt að muna allt. En ég hef aldrei – aldrei áður staðið og talað við færeyska sendiráðið. Að þessu sinni erum við þó ekki – aldrei þessu vant - að mótmæla ofríki og yfirgangi ríkisstjórnar þess lands við hvers sendiráð við stöndum. Ónei! Við erum hér í samstöðuaðgerð með félögum okkar í Færeyjum sem efndu til mótmælafundar í Þórshöfn í dag kl. 17 á færeyskum tíma – skipuleggjendur hafa fengið tilkynningu um þessar aðgerðir okkar. Aðstandendur Þórshafnarfundarins eru einkum unghlðahreyfingar nokkurra stjórnmálaflokka í Færeyjum og tilefnið eru áform um hernaðaruppbyggingu. Fyrir utan það að Færeyjar eru litla systir okkar Íslendinga í veröldinni – og okkur ber menningarleg og siðferðislega skylda til að fylgjast með því sem þar fer fram. En þess utan – þegar kemur að hernaðarmálum – hafa örlög Íslands og Færeyja lengi verið samofin. Í síðari heimsstyrjöldinni voru Færeyjar hernumdar fáeinum vikum áður en breski herinn steig á land á Íslandi. Íslendingar stofnuðu lýðveldi í stríðslok en Færeyingar samþykktu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem danska stjórnin ákvað þó að hafa að engu. Að heimsstyrjöldinni lokinni sáu Bandaríkin og síðar Nató bæði löndin sem mikilvægar bækistöðvar í hernaðaruppbyggingarneti Kalda stríðsins. Í Keflavík reis herstöð og í raun líka net minni hernaðarmannvirkja, þar á meðal ratsjárstöðva. Í Færeyjum var komið upp ratsjárstöð á Sornfelli, rétt fyrir utan Þórshöfn, snemma á sjöunda áratugnum. Saga þess mannvirkis var saga svika og undirferlis, þar sem dönsk stjórnvöld gættu þess að veita Færeyingum sem allra minnstar upplýsingar um eðli starfseminnar. Það var ekki fyrr en löngu síðar að það rann upp fyrir íbúum Færeyja hversu umfangsmikil bandarísk herstöð hefði í raun verið rekin rétt fyrir utan höfuðstaðinn. Þessi saga lyga og leynimakks er dæmigerð fyrir framferði danskra ráðamanna gagnvart hjálendum sínum, Færeyjum og Grænlandi á tuttugustu öld, þar sem Bandaríkjamönnum var gefið frítt spil til stórfelldra umsvifa og Danir gættu þess að spyrja einskis og segja íbúum landanna ekki neitt. Herstöðvaandstaðan í Færeyjum var alla tíð öflug og því fagnað innilega þegar slökkt var á hernaðarhluta ratsjárstöðvarinnar á Sornfelli á nýársdag 2007. Helsta táknmynd kalda stríðsins var úr sögunni... eða það héldu menn. Síðustu árin höfum við fylgst með sívaxandi áherslu Bandaríkjastjórnar á vígvæðingu við Norður-Atlantshaf. Hér heima sjáum við það með síauknu eftirlitsflugi með kjarnorkukafbátum og aukinna umsvifa í Keflavíkurflugvelli því tengdu. Við sjáum það með tíðum heræfingum, loftrýmisgæslu og herskipakomum – líkt og blasir við okkur í Sundahöfn þessa daganna. Nágrannar okkar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun heldur. Á síðasta ári var samþykkt í Kaupmannahöfn að verja um 1,5 milljörðum danskra króna – það er um 30 milljarðar íslenskra króna – til hernaðaruppbyggingu í Færeyjum og Grænlandi í samræmi við uppbyggingarstefnu Nató. Um 7 milljarðar af þeirri fjárhæð voru eyrnamerktar til endurbyggingar og opnunar hernaðarratsjárstöðvarinnar á Sornfelli. Þessar fréttir komu eins og þruma úr heiðskíru lofti í Færeyjum og ollu gríðarlega hörðum viðbrögðum. Ekkert hafði verið hirt um að ræða málið við heimamenn. Segja má að í Færeyjum skiptist almenningsálitið í þrennt þegar kemur að ratstjárstöðvarmálinu: í fyrsta lagi eru það þeir sem vilja fylgja forskrift Danmerkur og Nató í einu og öllu. Í öðru lagi eru það þeir sem gætu vel hugsað sér bandarísk hernaðarumsvif á eyjunum á nýjan leik, en vilja að slíkt sé gert í samráði við heimamenn. Þessi afstaða hefur til að mynda verið sterk innan Fólkaflokksins, sem svipar í stefnumálum um margt til Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Í þriðja lagi er það hópurinn sem hafnar hernaðarumsvifum alfarið og vill ekki sjá neina slíka uppbyggingu í Færeyjum. Skoðanakannanir í Færeyjum benda til þess að mikillar andstöðu við uppbyggingaráformin en staðan á lögþinginu er flóknari og alveg óljóst hvernig málinu myndi reiða af ef það kæmi til kasta þingsins. Kröfugerðir mótmælanna í Þórshöfn endurspegla þennan pólitíska veruleika. Yfirskrift aðgerðanna þar er: „Vit krevja fólkaræði og føroyskar loysnir“ – með öðrum orðum: ekki komi til greina að samþykkja hernaðaruppbyggingu í Færeyjum eftir danskri forskrift og einungis með undirskrift ráðherra utanríkis- og varnarmála... algjört lágmark sé að málið fáist rætt og þá samþykkt eða synjað á færeyska þinginu. Sum þeirra sem standa að mótmælunum í Færeyjum krefjast einfaldlega þess að áætlununum verði algjörlega ýtt út af borðinu. Önnur leggja áherslu á að ef til verkefnisins komi þá sé fráleitt að mannvirkin heyri undir danska varnarmálaráðuneytið og verði skipuð starfsmönnum þess – slík ratsjárstöð yrði í það minnsta að heyra undir færeyska stjórn. Fáist málið ekki tekið fyrir í færeyska lögþinginu – er viðbótarkrafa sú að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Herstöðvabaráttan er og hefur alltaf verið í eðli sínu alþjóðleg. Við Íslendingar höfum ekki í okkar baráttu verið drifin áfram af þeirri hugmynd að hernaðarmannvirki séu góðra gjalda verð – þau eigi bara að vera einhvers staðar annars staðar. Heimsstyrjaldir verði í öðrum löndum! Nei, við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu og stöndum gegn hernaðaruppbyggingu alltaf, alls staðar. Það er okkar hlutverk að standa gegn Nató-ásælni á Íslandi á sama hátt og félagar okkar í Grænlandi standa gegn áformum um nýja herflugvelli og vinir okkar í Færeyjum hafna því að gamall draugur verði vakinn upp að nýju á Sornfelli. Vit krevja fólkaræði og føroyskar loysnir – segja féalgar okkar í Þórshöfn. Og við tökum svo hjartanlega undir þau orð. Stefán Pálsson

Færslur

SHA_forsida_top

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir? - III.hluti, varalögregla & leyniþjónusta

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir? - III.hluti, varalögregla & leyniþjónusta

Í aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru …

SHA_forsida_top

Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu

Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu

Síðastliðinn laugardag, 5. maí, var haldin í Prag alþjóðleg ráðstefna gegn hervæðingu Evrópu. Tékkneskir hernaðarandstæðingar …

SHA_forsida_top

Vestrænt siðferði í verki

Vestrænt siðferði í verki

Bandaríska ríkið veitti helmingi meira fé til að rannsaka ástarleiki Bill Clintons, fyrrv. forseta Bandaríkjanna, …

SHA_forsida_top

Undirskriftasöfnun til að enda martröðina

Undirskriftasöfnun til að enda martröðina

Eftir innrás Bandaríkjanna og fleiri ríkja í Írak 2003 var settur upp dómstóll í anda …

SHA_forsida_top

Pétur Pétursson. Kveðja frá SHA

Pétur Pétursson. Kveðja frá SHA

Samtök hernaðarandstæðinga minnast með virðingu Péturs Péturssonar sem borinn var til hinstu hvílu í dag …

SHA_forsida_top

Opinn félagsfundur MFÍK

Opinn félagsfundur MFÍK

Fundurinn hefst með sameiginlegu borðhaldi. Listakokkurinn Ruby (Veróníka S.K. Palaniandy) mun sjá um matseldina ásamt …

SHA_forsida_top

Friðarhús í útleigu

Friðarhús í útleigu

Friðarhús í útláni

SHA_forsida_top

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir? - II. hluti, Ísland og NATO

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir? - II. hluti, Ísland og NATO

Í aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru …

SHA_forsida_top

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð? Þetta er fyrirsögn á fréttasíðum Textavarps Ríkisútvarpsins í …

SHA_forsida_top

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir – I.hluti, varnarsamningur Íslands og BNA

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir – I.hluti, varnarsamningur Íslands og BNA

Í aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru …

SHA_forsida_top

1. maí - til baráttu fyrir réttlæti, velferð og friði

1. maí - til baráttu fyrir réttlæti, velferð og friði

SHA_forsida_top

1. maí kaffi SHA 2007

1. maí kaffi SHA 2007

Munið 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi frá kl. 11. Setið verður að …

SHA_forsida_top

Kröfuspjaldasmiðja Friðarhúsi mánudagskvöld kl. 8

Kröfuspjaldasmiðja Friðarhúsi mánudagskvöld kl. 8

Samtök herstöðvaandstæðinga, nú hernaðarandstæðinga (SHA), hafa löngum verið áberandi með boðskap sinn fyrir …

SHA_forsida_top

Bókun Steingríms J. Sigfússonar á 1229. fundi utanríkismálanefndar, 24. apríl 2007, um öryggismál á Norður-Atlantshafi

Bókun Steingríms J. Sigfússonar á 1229. fundi utanríkismálanefndar, 24. apríl 2007, um öryggismál á Norður-Atlantshafi

Undirritaður, fulltrúi þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í utanríkismálanefnd, er því að sjálfsögðu fylgjandi að …

SHA_forsida_top

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins vegna undirritunar samkomulags við Dani og Norðmenn um samstarf á sviði öryggismála

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins vegna undirritunar samkomulags við Dani og Norðmenn um samstarf á sviði öryggismála

Undirritun við Dani og Norðmenn um samstarf á sviði öryggismála 26.4.2007 FRÉTTATILKYNNING frá utanríkisráðuneytinu Nr. …