BREYTA

Blysför til friðar á Akureyri á Þorláksmessu 2009

Á Þorláksmessu var gengið til friðar niður Laugaveginn í Reykjavík í þrítugasta sinn. Þar flutti Einar Már Guðmundsson ávarp. Á Ísafirði fluttu Elsa Þorgeirsdóttir og Þórhallur Arason ávörp. Á á Akureyri var nú farin blysför gegn stríði í áttunda sinn í röð og stóð Friðarframtak fyrir henni undir kjörorðunum
    - Frið í Írak og Afganistan! - Burt með árásar og hernámsöflin! - Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!
Um 50 manns gengu frá Samkomuhúsinu og út á Ráðhústorg í logni og 12 stiga frosti. Þar stýrði Jóna Lovísa Jónsdóttir skólaprestur torgfundi. Ösp Kristjánsdóttir frá Tjörn söng og Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni í Glerárkirkju flutti ávarp. Göngufólkið söng nokkur jólalög og í fundarlok var borin upp og samþykkt ályktun. Að Friðarframtaki á Akureyri stóðu Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi og Æskulýðssamtök Þjóðkirkjunnar. Hér er ályktunin frá Akureyri og ávarp Péturs Björgvins. Ályktun um friðsamlega framtíð Sá brotsjór sem nú gengur yfir íslenskt þjóðfélag er aðeins hluti af stærra umróti. Þar rennur í eitt siðferðis-, efnahags- og umhverfiskreppa. Heimsástandið einkennist af miklum hagsmunaárekstrum og þau eru í vaxandi mæli leyst með vopnavaldi. Misskipting auðs á milli heimshluta ýtir undir átök, bæði innan landa og á milli þeirra. Samkeppni um auðlindir jarðar og yfirgangur stórvelda er rótin að stríðunum í Írak og Afganistan. Það er góður siður að bæta við hinn almenna friðarboðskap jólanna andstöðu við stríðsrekstur og yfirgang á líðandi stund. Ýmsir trúartextar búa yfir skynsamlegri visku kynslóðanna. Í Orðskviðunum stendur:
    Sá sem kúgar snauðan mann óvirðir skapara hans en sá sem miskunnar snauðum heiðrar hann. Hinn rangláti fellur á illsku sinni (Orðskviðirnir 14:31)
Við lýsum yfir þeirri von og þeirri ætlan að það endurreisnarverkefni sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir verði leyst á grundvelli réttlætis og samhugar, í sátt við umhverfi og náttúru og með virðingu fyrir mannlegri reisn. Við förum fram á að framlag Íslands, í fjármunum og mannskap, til hernáms Afganistans verði fellt niður strax og sérhver stuðningur við hernám Íraks sömuleiðis. Ávarp Péturs Björgvins Þorsteinssonar Kæru systkin. Ég tel að með síauknum fólksflutningum og samskiptum fólks með bakgrunn af ýmsum toga, hvort heldur er varðandi þjóðerni, trú eða kynþátt, séu spurningarnar um réttlæti og samstöðu aldrei áleitnari en nú, og þar með nátengdar spurningar um lýðræði og frelsi. Hnattvæðing er í mínum huga það að einstaklingurinn upplifir hraða breytingu á heimsmyndinni í kringum sig. Helstu áhrifavaldar í lífi hans eru ekki lengur fólkið í bænum hans, stjórnmálamennirnir sem hann kaus og fyrirtækið sem hann vinnur hjá. Stórfyrirtæki og aðrir leikmenn á velli hnattvæðingarinnar birtast nú á þröskuldinum hjá honum og hann efast um eigið sjálfstæði og spyr um fullveldi þjóðar sinnar. Og hann leitar að nýju handriði að styðja sig við. Ég viðurkenni að mér líkar hnattvæðingin að því leyti að hún bíður upp á aukna möguleika til samsömunar við stétt, kynferði, kynhneigð, trú og margt fleira þvert á landamæri. En mér er líka ljóst að þetta frelsi þvert á landamæri hefur að hluta snúist í andhverfu sína, því um leið og aukið rými hefur skapast fyrir fjölbreytni, hefur ásteytingarsteinum fjölgað og sumir kjósa að hugsa bara um sig. Ég spyr hvort þetta marghliða og þversagnakennda hnattvæðingarferli, þar sem einstaklingshyggjan eykst samhliða hnattborgarasamsömuninni í flóru fjölhyggju og fjölmenningar, kalli ekki á nýjar fræðikenningar. Við sjáum að fólk leitar eftir samskiptum þvert á landamæri til að efla þekkingu sína, til að uppgötva hvert það sjálft er, hvaða hópi það vill tilheyra og hvaða framtíð það getur skapað sér og sínum. Þetta þykir mér jákvætt, sérstaklega þegar leitað er eftir þekkingu og upplifun sem hefur jákvæð áhrif á þann máta sem við sem samfélag viljum nota fyrir samsömun einstaklingana, fyrir framleiðslu- og stjórnarhætti sína. Vissulega hefur samsömun fólks í gegnum aldirnar tengst þjóðerni, en eru viðhorfin ekki önnur í dag? Ég leyfi mér að varpa þeirri spurningu fram hér í kvöld – og beini henni jafnt til mín sem til þín: Hvort er mikilvægara að kenna sig við þjóð eða kenna sig við frið? Darmstädter Signal er hreyfing sem ég kynntist nýverið í gegnum tímarit sem ég er áskrifandi að. Og hjarta mitt fylltist von um að lýðræðinu væru að opnast nýjar leiðir. Þessi hreyfing er félagsskapur sem kallar sig á þýsku ,,kritischer Forum für Staatsbürger in Uniform“, semsagt einstaklingar sem þjóna landi sínu sem ríkisborgarar þess í hermannabúningi og telja það um leið skyldu sína að vera krítísk rödd um ákvarðanir sem eru teknar og hvernig þær eru framkvæmdar þegar kemur að hernaðarmálum. Og það er meira en áhugavert að heyra hvað einn af forsvarsmönnum þessarar hreyfingar hefur að segja um stríðið í Afganistan. Ekki vegna þess að við þekkjum ekki málefnið sem hann talar um, heldur áhugavert vegna þess hver það er sem segir það, en félagsskapurinn sendi þeim sem sitja á þýska þinginu, Bundestag, nýverið erindi þess efnis að hvatt er til að Þjóðverjar dragi sig út úr stríðinu í Afganistan. Sú rök að Þjóðverjar séu hluti af stærra bandalagi þykir honum duga skammt og bendir á að:
    Hlutirnir snúast ekki um að verja lýðræði og mannréttindi í Afganistan, heldur um að þjóna sem fánaberi bandarísks ákalls um forræðishyggju. Það er verið að byggja upp betri hernaðarstöðu í Asíu og tryggja vernd á svæði sem á að nota til að leggja gasleiðslu og þar með eru hvatirnar orðnar viðskiptalegs eðlis.
Og þessa þjónandi hermaður talar um sekt Þýskalands í þessu samhengi og krefst þess að gengið sé í málin af alvöru. Það dugi ekki að frú Merkel tilkynni að senda eigi 250 lögreglumenn til Afganistan til að aðstoða við þjálfun lögreglumanna þar og svo séu bara sendir 60. Í stað þess að setja peninga áfram í hernaðarbrölt sé tími til kominn að nota peningana í friðarverkefni. Það ætti að vera auðvelt að standa hér í dag og taka undir með þessum þýska hermanni og stórum hópum fólks út um allan heim sem hefur margbent á að hernaðarbrölt í formi skaðlegra valdaleikja þar sem hvatinn er talinn í seðlum en mannslífin fyrirlitin, er eitthvað sem við viljum ekki sjá. Við ættum að vita að rödd okkar, þó lítil sé, hefur áhrif, styður við tjáningu aðra, sýnir samstöðu og samkennd, er dropi sem holar steininn. Og hér er gott fyrir okkur sem hugsum á nótum Biblíunnar að muna eftir því að Jesaja stóð einsamall þegar hann hvatti til þess að sverðum yrði breytt í garðyrkjutæki! Við eigum að sameinast um að byggja upp, ekki rífa niður. En sennilegast er auðveldar að sitja heima og gera ekki neitt. Það geri ég að minnsta kosti allt of oft. Þá gerir maður engin mistök, eða hvað? Leyfið mér að ljúka máli mínu með sögu eftir rabbí Marshall Meyer:
    Maður nokkur hafði misst áttirnar í dimmum skógi. Eftir því sem dagsbirtan þvarr, og skuggarnir stækkuðu og stækkuðu þar til þeir urðu að dimmri nótt, jókst hræðsla hans. Eftir þrjá daga og þrjár nætur þar sem tilfinningin um að vera án vonar og vissan um að vera týndur höfðu tekið yfirhöndina var hann orðinn örvæntingafullur. Á fjórða degi sá hann skrímsli stefna í áttina til sín, í gegnum skuggablandna dagsbirtu drungalegs skógarins. Hann fyllti vasa sína með steinum til að henda í skrímslið og tók sér þykka trjágrein í hönd sem barefli sjálfum sér til varnar. Hjartað barðist í brjósti hans og hann svitnaði sífellt meir af hræðslu þegar skrímslið stækkaði og stækkaði, eftir því sem það kom nær honum. Það var jafn hátt og manneskja. Hann skreið á bak við runna, tók oddhvössustu steinana sér í hönd og bjóst til varnar. Þegar skrímslið nálgaðist enn frekar var hann frosinn af hræðslu. En þá rann upp fyrir honum ljós, skrímslið hræðilega var manneskja. Hann losaði sig við steinana en hélt bareflinu eftir svona til vonar og vara. En þegar manneskjan var komin alveg að honum þá henti hann bareflinu frá sér og faðmaði manneskjuna sem þarna var mætt. Þetta var bróðir hans.

Færslur

SHA_forsida_top

Er starfsemi Varnarmálastofnunar nauðsynleg?

Er starfsemi Varnarmálastofnunar nauðsynleg?

Samkvæmt Fréttablaðinu eru verkefni stofnunarinnar talin upp í 8 liðum. 1. Rekstur loftvarnakerfis, þar með …

SHA_forsida_top

Borgarstjóri á réttri leið

Borgarstjóri á réttri leið

Í Fréttablaðinu í dag, miðvikudaginn 15. desember, er ánægjuleg fregn um tillögur borgarstjóra þess …

SHA_forsida_top

Bókmenntakynning MFÍK

Bókmenntakynning MFÍK

Laugardaginn 11. desember verður hin árlega bókmenntakynning Menningar- og friðarsamtakanna MFÍK í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105 …

SHA_forsida_top

Aðventufundur Feministafélagsins

Aðventufundur Feministafélagsins

Feministafélagið fundar í Friðarhúsi.

SHA_forsida_top

Undirbúningsfundur Þorláksmessugöngu

Undirbúningsfundur Þorláksmessugöngu

Samstarfshópur friðarhreyfinga fundar í Friðarhúsi.

SHA_forsida_top

Miðnefndarfundur SHA

Miðnefndarfundur SHA

Miðnefnd SHA fundar í Friðarhúsi.

SHA_forsida_top

Össur mistúlkar Lissabonfundinn

Össur mistúlkar Lissabonfundinn

eftir Þórarinn Hjartarson Birtist í Fréttablaðinu 2. des. 2010 Össur Skarphéðinsson kallar NATO-fundinn í …

SHA_forsida_top

Össur ginnkeyptur

Össur ginnkeyptur

eftir Finn Guðmundarson Olguson Birtist í Fréttablaðinu 1. des. 2010 Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ritaði …

SHA_forsida_top

Utanríkisstefna óskhyggjunnar

Utanríkisstefna óskhyggjunnar

eftir Sverri Jakobsson Birtist í Fréttablaðinu 30. nóv. 2010 Núverandi ríkisstjórn hefur að ýmsu …

SHA_forsida_top

19 stjórnlagaþingmenn hlynntir ákvæði um kjarnorkuvopnalaust Ísland

19 stjórnlagaþingmenn hlynntir ákvæði um kjarnorkuvopnalaust Ísland

Eitt þeirra atriða sem frambjóðendur til stjórnlagaþings gátu tekið afstöðu til í spurningalista DV, sem …

SHA_forsida_top

Friðlýsingu, tafarlaust!

Friðlýsingu, tafarlaust!

Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, hvetur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna til að …

SHA_forsida_top

Heimur án kjarnorkuvopna

Heimur án kjarnorkuvopna

Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, lýsir áhyggjum af þeim fregnum sem borist hafa …

SHA_forsida_top

Þjóðaratkvæði um aðildina að Nató!

Þjóðaratkvæði um aðildina að Nató!

Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, minnir á þá gömlu kröfu sína að íslensku …

SHA_forsida_top

Höfnum hernaðarstarfsemi og heræfingum á Íslandi

Höfnum hernaðarstarfsemi og heræfingum á Íslandi

Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, krefst þess að herstöðvasamningi Íslands við Bandaríkin verði …

SHA_forsida_top

Ný miðnefnd SHA

Ný miðnefnd SHA

Ný miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fyrir starfsárið 2010-2011 var kjörin á landsráðstefnu hinn 24. nóvember 2010. …