BREYTA

Brunaútköllum sinnt vikulega

Eftirfarandi grein eftir Stefán Pálsson formann SHA birtist í 24 stundum 9. maí. Ritstjóri 24 stunda fagnaði í leiðara sínum 7. maí komu franskrar flugsveitar hingað til lands. Í leiðinni fann hann sérstaklega að gagnrýni okkar í Samtökum hernaðarandstæðinga á dvöl þessa erlenda herliðs – sem ritstjórinn kallar af hnyttni sinni „hlífðarfrakka“. Eins og aðrir stuðningsmenn hersetu á Ólafur Þ. Stephensen í nokkrum vandræðum með að finna óvin til að réttlæta vígbúnaðinn en grípur þess í stað til myndlíkingar við brunavarnir: „Við leggjum ekki niður slökkviliðið þótt langt sé síðan kviknaði í síðast.“ Gott og vel, tökum þessa líkingu og leiðum hana aðeins lengra. Ef við metum það sem svo að hætta sé á eldsvoða er til lítils að starfrækja slökkvilið á fimmtudögum og í júlí. Það getur nefnilega kviknað í alla daga vikunnar. Slíkar brunavarnir væru álíka skynsamlegar og að kaupa sér hlífðarfrakka til að ganga í sjötta hvern dag og vona að haustlægðirnar raði sér heppilega niður á dagatalið. Telji ritstjóri 24 stunda að hringsól orrustuþotna sé mikilvægt fyrir öryggi Íslands (en því er ég hjartanlega ósammála) hlýtur hann að taka upp baráttu fyrir endurreisn herstöðvarinnar á Miðnesheiði og stöðugri viðveru slíkra véla á landinu. Það væri jafn rökrétt og að halda slökkvistöðinni opinni allan ársins hring og geta gengið að hlífðarfrakkanum inni í skáp. „Loftrýmiseftirlit“ það sem svo er nefnt getur því aldrei talist til raunverulegra varna. Af hálfu íslenskra ráðamanna er hún sýndarmennska og flottræfilsháttur – en frá sjónarmiði útlendra herforingja er hún kærkomin og niðurgreidd æfing fyrir flugmennina. Ritstjóri 24 stunda getur sleppt því að lesa út úr heimsókn Frakka teikn um miklar breytingar á franskri utanríkispólitík. Á tímum þar sem æfingaflug herþotna er víðast hvar illa séð er ekki skrítið þótt flugherir bíði í röðum eftir að fá að leika sér í landi sem býður fram leikvöll og vasapening í kaupbæti. Ritstjóri 24 stunda, Ólafur Stephensen, svaraði grein Stefáns í leiðara 14. maí. Samhengisins vegna leyfum við okkur að birta hér umrædda leiðara frá 7. og 14. maí, en 24 stundir má reyndar nálgast á netinu á slóðinni http://mbl.is/mm/24stundir/blod_vikunnar.html. Hlífðarfrakkar Leiðari 24 stunda 7. maí 2008 eftir Ólaf Stephensen Koma frönsku flugsveitarinnar, sem mun hafa eftirlit með loftrými Íslands næstu vikurnar, markar að ýmsu leyti tímamót. Í fyrsta lagi er koma Frakkanna ánægjuleg staðfesting á að vel gengur að koma varnarmálum Íslands í viðunandi horf eftir að varnarliðið pakkaði saman. Með áætlun Atlantshafsbandalagsins, NATO, um loftrýmiseftirlit annars vegar og hins vegar með tvíhliða samningum við nágrannaríki um aukið öryggissamstarf eru hagsmunir Íslands tryggðir, a.m.k. í bili. Í öðru lagi er þátttaka Frakka í eftirlitinu til marks um aukinn áhuga þeirra á samstarfinu í NATO. Frakkar boða nú að þeir taki á ný þátt í herstjórnarkerfi NATO eftir meira en 40 ára fjarveru. Eftirlitsflugið við Ísland er áþreifanlegt skref í þá átt, sem styrkir að sjálfsögðu bandalagið í heild. Í þriðja lagi virðist sem Frakkar sýni nú Norður-Atlantshafinu meiri áhuga en áður – og meiri en ýmis önnur NATO-ríki gera. Það skiptir máli fyrir Ísland og hin norrænu aðildarríkin, sem lengi undanfarið hafa reynt að draga athygli bandalagsins að norðurhöfum og nýjum aðstæðum í öryggismálum þar, að eitt af stærri aðildarríkjunum sýni svæðinu þann áhuga, sem raun ber vitni. Líklega finnst Frökkum heldur ekki leiðinlegt að stíga að hluta inn í það tómarúm, sem Bandaríkin skildu eftir sig á N-Atlantshafinu. Þær gagnrýnisraddir, sem heyrast vegna komu Frakkanna, koma ekkert á óvart. Þær eru endurómur gamalla röksemda. Þeir sem halda því fram að eftirlitsflugið sé óþarft vegna þess að engin hernaðarleg ógn steðji að Íslandi, hafa rétt fyrir sér um að ógnin er lítil. En flest ríki vilja samt tryggja varnir sínar. Við leggjum ekki niður slökkviliðið þótt langt sé síðan kviknaði í síðast eða lögregluna þótt enginn brjóti af sér. Eftirlitsflug NATO-ríkja er fyrst og fremst yfirlýsing um að Ísland sé varið land. Stefán Pálsson, formaður „hernaðarandstæðinga“, segir í 24 stundum í gær að reynt sé að setja eftirlitið í þann búning að það sé varnarráðstöfun gegn Rússum. Það er það auðvitað ekki, því að Rússar sýna enga tilburði til að ráðast á Ísland. En þeir hafa aukið herflug sitt við landið til muna. Ef Rússar sæju á því flugi aldrei NATO-þotu gætu þeir ályktað sem svo að þeir ættu frítt spil við Ísland eftir að varnarliðið fór. Viljum við það? Stefán segir líka að kostnaður íslenzka ríkisins af því að taka á móti flugsveitum NATO-ríkja sé „niðurgreiðsla á flugæfingum“. Njóti einhver niðurgreiðslu í þessu máli, eru það íslenzkir skattgreiðendur. Í fyrsta sinn tökum við hins vegar örlítinn þátt í kostnaðinum við að tryggja varnir landsins – og þótt fyrr hefði verið. (Viðtalið við Stefán er á bls. 6 hér: http://mbl.is/bladidnet/2008-05/2008-05-06.pdf) Að skilja slökkviliðið Leiðari 24 stunda 14. maí 2008 eftir Ólaf Stephensen Það ber dálítið á því að fólk skilur ekki tilgang loftrýmiseftirlitsins, sem ýmis ríki NATO hafa tekið að sér hér á landi. Reyndar ber mest á skilningsleysinu hjá þeim, sem skildu aldrei heldur til hvers var varnarlið hér á landi. Í þessum hópi er Stefán Pálsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, sem skrifaði álitsgrein í 24 stundir til að svara leiðara um þessi efni hér í blaðinu. Stefán, sem var á móti öllum vörnum hér á landi þegar hann var í Samtökum herstöðvaandstæðinga, kvartar nú undan því að loftrýmiseftirlitið geti „aldrei talist til raunverulegra varna“. Stefán heldur áfram með samlíkinguna um slökkvilið, sem notuð var í leiðaranum: „Ef við metum það svo að hætta sé á eldsvoða er til lítils að starfrækja slökkvilið á fimmtudögum og í júlí.“ Við sama tón kveður hjá Höllu Gunnarsdóttur, þingfréttaritara Morgunblaðsins, sem skrifar í blaðið á laugardag: „Ef loftrýmisgæsla er lykilatriði í að tryggja öryggi þjóða, hvers vegna á hún aðeins að vera hér á landi hluta úr árinu? Er Ísland þá óvarið í millitíðinni?“ Halla hefur, rétt eins og Stefán, áhyggjur af kostnaði Íslendinga af vörnum landsins, þar með töldum þeim 200 milljónum, sem íslenzka ríkið kostar til húsnæðis og uppihalds fyrir erlendu flugsveitirnar hér á landi. Varðandi loftrýmiseftirlitið eru tvö lykilatriði, sem þarf að hafa í huga. Í öllum ríkjum NATO er slíku eftirliti haldið úti. Það þýðir ekki að flogið sé um hvern krók og kima á yfirráðasvæði þeirra daglega, heldur að þar sé reglubundið eftirlit. Ef ekkert slíkt eftirlit er í einu aðildarríki og þar með talið á stórum hluta af hafsvæðinu, sem NATO hefur tekið að sér að verja, verður til veikur hlekkur í öryggiskeðju bandalagsins. Hver kynni að vilja nýta sér slíkan veikan hlekk vitum við ekkert um; það er eðli ógna við öryggi ríkja í samtímanum að þær eru ófyrirsjáanlegri en áður. Það að flugsveitir NATO-ríkja stundi eftirlit hér nokkrar vikur í senn er yfirlýsing um að bandalagsríki okkar hafi bæði getu og vilja til að verja Ísland ef til þess þarf að koma. Þetta samstarf þýðir sömuleiðis að flugmenn NATO-ríkjanna þekkja til aðstæðna hér á landi og kunna að athafna sig. Þannig eru þau skilaboð send umheiminum að Ísland sé varið land. Slökkviliðið ekur ekki eftirlitsrúnt á hverjum degi, en það æfir sig í að mæta tilteknum aðstæðum, svo aftur sé gripið til samlíkingarinnar, sem Stefáni Pálssyni finnst svo athyglisverð. Og varðandi 200 milljóna króna kostnaðinn, er það harla vel sloppið. Við erum reyndar orðin vön því að þurfa ekki að kosta krónu til varna landsins. Ef við verðum viðlíka hlutfalli af landsframleiðslunni til varnarmála og þau NATO-ríki önnur, sem minnst leggja til eigin varna, væru varnarmálaútgjöldin um sautján milljarðar á ári. Það er langt þangað til hægt er að fara að tala um að kostnaður við varnarmál hér á landi sé of mikill.

Færslur

SHA_forsida_top

Friðarhús í úleigu

Friðarhús í úleigu

Friðarhús er í útleigu v. einkasamkvæmis.

SHA_forsida_top

8. mars: fundur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 17

8. mars: fundur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 17

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Opinn fundur fimmtudaginn 8.mars 2007 kl.17 í …

SHA_forsida_top

8. mars – 19. mars – 30. mars. Takið þessa daga frá!

8. mars – 19. mars – 30. mars. Takið þessa daga frá!

8. mars, fimmtudagur. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Baráttufundur í Ráðhúsi Reykjavíkur …

SHA_forsida_top

Miðnefndarfundur SHA

Miðnefndarfundur SHA

Miðnefnd SHA fundar í Friðarhúsi

SHA_forsida_top

Bandarískar herstöðvar í Afríku og baráttan gegn þeim.

Bandarískar herstöðvar í Afríku og baráttan gegn þeim.

Þegar nafni samtaka okkar var breytt í Samtök hernaðarandstæðinga hættu þau ekki að vera samtök …

SHA_forsida_top

Ísland-Palestína

Ísland-Palestína

Félagið Ísland-Palestína fundar í Friðarhúsi.

SHA_forsida_top

Höfnum heræfingum á Íslandi! Höfnum innrás í Íran!

Höfnum heræfingum á Íslandi! Höfnum innrás í Íran!

Ástæða er til að vekja athygli á tveimur greinum sem nýlega hafa birst á vefritinu …

SHA_forsida_top

Byrjum Safnanótt í Friðarhúsi

Byrjum Safnanótt í Friðarhúsi

Safnanótt Reykjavíkur verður haldin föstudagskvöldið 23. febrúar n.k. Boðið verður upp á frábæra dagskrá um …

SHA_forsida_top

Undirbúningsfundur v. 8.mars

Undirbúningsfundur v. 8.mars

Samkoma á baráttudegi kvenna 8. mars undirbúin í Friðarhúsi.

SHA_forsida_top

Kvöldverður Í Friðarhúsi

Kvöldverður Í Friðarhúsi

Kvöldverður Í Friðarhúsi 23. febrúar Matseðill: Karrí kjúklingasúpa Pastasalat Hrísgrjónaréttur Nýbökuð brauð og hummus Unnur …

SHA_forsida_top

Athugasemdir við frumvarp um friðargæslu

Athugasemdir við frumvarp um friðargæslu

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna. Elías Davíðsson hefur kynnt sér þennan …

SHA_forsida_top

Aðalfundur MFÍK

Aðalfundur MFÍK

Aðalfundur MFÍK, haldinn í Friðarhúsi.

SHA_forsida_top

Rúm 90% búa í friðlýstum sveitarfélögum

Rúm 90% búa í friðlýstum sveitarfélögum

Þau gleðilegu tíðindi hafa borist að bæjarstjórn Hornafjarðar hefur orðið við hvatningu Samtaka hernaðarandstæðinga og …

SHA_forsida_top

Friðarhús í útleigu, einkasamkvæmi

Friðarhús í útleigu, einkasamkvæmi

Friðarhús í útleigu, einkasamkvæmi

SHA_forsida_top

Undirbúningsfundur v. 8.mars

Undirbúningsfundur v. 8.mars

Undirbúningsfundur í Friðarhúsi fyrir samkomu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.