BREYTA

Friðargönguræða - Ísafirði

Ég tel mig vita að það sé hefð fyrir því í friðargöngu að rifja upp ófriðinn í heiminum – eins undarlega og það nú hljómar. Þá – það er að segja hér og nú – minnumst við ekki þeirra sem lifa við frið, heldur þeirra sem lifa við ofbeldi – bæði í þessum orðum töluðum og þeirra sem hafa mátt þola það á undangengnum misserum; þeirra sem voru skotnir á götum Parísar, aflífaðir af drónum í Pakistan, við minnumst pólitískra fanga í Kína, í Víetnam, á Kúbu, við minnumst Alans Kurdis – drengsins litla sem var ljósmyndaður dauður, drukknaði við strendur Tyrklands og lauk ævinni í hringiðunni á Facebook, einsog holdgervingur þeirrar helstefnu sem við rekum við landamæri Evrópu – og við minnumst þeirra þúsunda sem hafa drukknað honum til selskapar, svo gott sem á dyraþrepinu okkar sem höfum skellt í lás. Við hugsum til þeirra sem flýja ISIS, þeirra sem flýja Assad, þeirra sem flýja loftárásir Bandaríkjamanna og Frakka, við hugsum til allra þeirra sem náðu ekki að flýja; við hugsum til þeirra sem íslenska ríkið – í mínu umboði og þínu – telur sig umkomið að senda til baka – út í dauðann; við hugsum til márítanískra þræla sem eru sendir aftur til eigenda sinna, til íraskra unglinga sem er hent á götuna í Aþenu, til hælisleitenda í Njarðvík sem kljást við íslenskt skrifræði með eina vopninu sem þeir eiga eftir: sínu eigin hungri; til albanskra fátæklinga sem er vísað út á guð og gaddinn með fársjúk börn sín – því við höfum ákveðið að það sé ekki nógu fínt að drepast úr fátækt, maður þurfi að vera ofsóttur af fólki með hnífa, byssur og sprengjur og maður þurfi þess utan að hafa pappíra sem sanni þær ofsóknir, undirritaða og vottaða af böðlunum sjálfum. Við hugsum til þeirra sem bjargast, fyrir það eitt að mál þeirra koma upp í gúrkutíð og enda í blöðunum, og við hugsum til hinna sem við fengum ekki neinar fréttir af og björguðust því aldrei. Við hugsum til þeirra sem búa við einræði og harðstjórn – listamanna, blaðamanna, bloggara og mótmælenda sem ríkið þaggar niður í. Við hugsum til listamanna, blaðamanna og bloggara sem þarf ekkert að þagga niður í, þeirra sem ryðjast áfram á meinleysinu, heimskunni og athyglissýkinni; við hugsum til listamanna, blaðamanna og bloggara sem leggja nótt við nýtan dag til þess að styðja og afsaka ofbeldisverk, þeirra sem vilja móta aðra í sinni eigin ógeðfelldu mynd, upphefja sjálfa sig sem skilyrðislausa fyrirmynd annarra. Við hugsum til stríðsins gegn jörðinni, náttúrunni, umhverfinu, til jökla sem bráðna og risavaxinna eyja úr rusli, ófriðnum sem við eigum í við plánetuna og við hugsum til stríðsins gegn sjálfinu – þeirrar ofbeldisfullu hugmyndafræði að allir elski eins, kynji eins, beri sig eins, þrammi í takt, neiti sér um andrúm og tíma til að hugsa, neiti sér um andstreymi og sérsinnu, neiti sér um samræðuna og lýðræðið, sem eru óaðskiljanleg; við hugsum til stríðsins gegn einsemdinni – þeirrar ofbeldisfullu hugmyndafræði að maður verði viðstöðulítið að standa skil á sjálfum sér fyrir augliti annarra, alltaf að bera sig á líkama og sálu, allt sé gjaldmiðill í hringrás deilihagkerfis, og ekki síst vináttan, ekki síst réttlætið, kærleikurinn. Allt það skal markaðsvætt og selt – fyrst fyrir ást og svo fyrir pening, fyrst fyrir athygli og svo fyrir völd, fyrst fyrir læk og svo fyrir heimsyfirráð. Við erum öll okkar eigin auglýsingastofa, rekum okkar eigið áróðursmálaráðuneyti og meðan að það geisa stríð erum við öll sek. Mér þykir leitt að segja það en við vitum það öll: Það verður aldrei neinn friður. Friður er jafnvægið sem við sækjumst eftir en höfum aldrei haldið. Friður er óhugsandi ástand, nema sem augnablik - og augnablik - og augnablik - á tilteknum stöðum – svona einsog lognið sem stingur sér niður í einn fjarðanna en skilur hina út undan, eða skip sem nær í var undir Grænuhlíð á meðan önnur farast. Það er stundum friður í Bolungarvík, og stundum friður á Suðureyri en það er aldrei friður alls staðar í senn, stundum friður í Kabúl, stundum friður í París, en það er aldrei friður alls staðar í senn. Í stórum heimi verður sennilega alltaf eitthvað sem verður að bíta og annað sem verður að brenna, það verður alltaf barist einhvers staðar – ef ekki á vígvöllum þá á heimilum, ef ekki í útrýmingarbúðum þá í svefnherbergjum, ef ekki á landamærum Schengen þá í flóttamannabúðunum, fangelsunum, sprengjubyrgjunum; ef ekki með hnefum og hnúum þá í sálum mannanna. En alls staðar þar sem er barist er líka rúm fyrir aðeins meiri frið, alls staðar þar sem er ofbeldi má draga úr. Á morgun höldum við jól, a.m.k. mörg okkar, enda árstíðin helg í flestum trúarbrögðum og ekki raunar síður fyrir þeim okkar sem aðhyllast alls engin trúarbrögð. Það er nefnilega um þetta leyti árs sem kýrnar taka til máls, sem vættir fara á kreik, frelsarar fæðast, jólasveinar skella hurðum, náttúruöflin láta finna fyrir sér, álfar freista manna á krossgötum, sólin tekur að rísa á ný og við – þetta yndislega og auma mannkyn, sem við erum – hefjum vegferð okkar út úr myrkrinu. Megi hún vara sem lengst. Gleðileg jól. Eiríkur Örn Norðdahl

Færslur

SHA_forsida_top

Landsfundur SHA & uppstillingarnefnd

Landsfundur SHA & uppstillingarnefnd

Landsfundur SHA verður haldinn sunnudaginn 2. desember nk. í Friðarhúsi. Skipuð hefur verið uppstillingarnefnd sem …

SHA_forsida_top

Meistaramánuður Nató - ályktun frá SHA

Meistaramánuður Nató - ályktun frá SHA

Eftirfarandi er ályktun frá Samtökum hernaðarandstæðinga og áskorun til utanríkisráðherra Íslands: Í rúm ellefu …

SHA_forsida_top

Til hamingju Sandgerði og Vogar!

Til hamingju Sandgerði og Vogar!

Langt er um liðið frá því að Samtök hernaðarandstæðinga urðu við ákalli erlendra friðarhreyfinga og …

SHA_forsida_top

Carl Sagan

Carl Sagan

SHA_forsida_top

Nýju stríðin og heilaþvottavélin mikla

Nýju stríðin og heilaþvottavélin mikla

eftir Þórarin Hjartarson Nýju stríðin og heilaþvottavélin mikla Voðaleg slagsíða er í fréttaflutningi íslenskra …

SHA_forsida_top

Októbermálsverður í Friðarhúsi

Októbermálsverður í Friðarhúsi

Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 26. október. Gestakokkur verður að þessu sinni hagfræðingurinn …

SHA_forsida_top

Ályktun frá SHA

Ályktun frá SHA

Um liðna helgi drápu sveitir NATO þrjú börn í loftárás í Helmand-héraði í Afganistan. Dráp …

SHA_forsida_top

Friðarmerki á Klambratúni

Friðarmerki á Klambratúni

2. október er alþjóðlegur baráttudagur fyrir tilveru án obeldis. Að því tilefni hafa ýmis grasrótar- …

SHA_forsida_top

Fyrsti fjáröflunarmálsverður haustsins

Fyrsti fjáröflunarmálsverður haustsins

Hinir sívinsælu málsverðir Friðarhúss hefjast að nýju föstudaginn 28. september. Haustgrænmetið verður í fyrirrúmi á …

SHA_forsida_top

Ályktun vegna þotudrauma

Ályktun vegna þotudrauma

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga vekur athygli á nýlegum fréttum af hollenska fyrirtækinu ECA Programs, sem virðast …

SHA_forsida_top

Merkiskona fellur frá

Merkiskona fellur frá

Systir Anne Montgomery, einhver kunnasta baráttukona bandarískrar friðarhreyfingar, lést á dögunum. Hún tók virkan þátt …

SHA_forsida_top

Heræfingar nyrðra

Heræfingar nyrðra

Upp á síðkastið hefur portúgölsk flugsveit verið við heræfingar hér á landi. Meðal annars hafa …

SHA_forsida_top

Sýrland og vestræn hernaðarstefna

Sýrland og vestræn hernaðarstefna

Þórarinn Hjartarson flutti ræðu á kertafleytingu á Akureyri þann 9. ágúst sl. Á fimmta tug …

SHA_forsida_top

Ávarp á kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn

Ávarp á kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn

Ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga við kertafleytingu á Tjörninni í Reykjavík 9.ágúst 2012. Kertafleyting friðarsinna á …

SHA_forsida_top

Aldrei aftur Hiroshima og Nagasaki

Aldrei aftur Hiroshima og Nagasaki

Kertafleyting á Reykjavíkurtjörn ÁG/HS Hin árlega kertafleyting til minningar fórnarlamba kjarnorkusprengjanna í Hiroshima og Nagasaki …