BREYTA

Friðargæsluliðar til Afganistan - röng ákvörðun segir Morgunblaðið

Ákveðið hefur verið að senda fjóra friðargæsluliða frá Íslandi til Afganistan á næstunni til viðbótar þeim þrettán sem nú eru þar (sjá frétt í Morgunblaðinu 5. mars). Þetta friðargæsluverkefni í Afganistan hefur verið afar umdeilt og hafa Samtök hernaðarandstæðinga gagnrýnt það. Það vill svo til að 28. febrúar, rétt áður en þetta var tilkynnt, var tekin til umræðu á Alþingi þingsályktunartillaga sem fjórir þingmenn Vinstri grænna lögðu fram í nóvember: Tillaga til þingsályktunar um heimkvaðningu friðargæsluliða frá Afganistan og endurskipulagningu íslensku friðargæslunnar.
    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að kalla heim íslenska friðargæsluliða í Afganistan, sem þar starfa sem hluti liðsafla NATO. Jafnframt verði þátttaka Íslands í friðargæslu og verkefnaval endurskipulagt í samræmi við markmið nýrra laga um íslensku friðargæsluna. Skal utanríkisráðherra vinna að þeirri endurskipulagningu í nánu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.
Svar utanríkisráðherra við þessari tillögu og umræður má lesa á vef Alþingis. Í umræðunum tók Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins undir þessa tillögu. En það eru ekki aðeins SHA, þingmenn Vinstri grænna og Jón Magnússon sem gera athugasemdir við þessa þátttöku Íslendinga í starfsemi NATO í Afganistan. Í leiðara Morgunblaðins 7. mars er sagt að það sé fráleit ákvörðun að senda friðargæsluliða til Afganistan. „Nær væri að kalla þá heim,“ segir í leiðaranum. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem þessu skoðun kemur fram í leiðara Morgunblaðsins, sama afstaða kom fram í leiðara blaðsins 30. júlí 2007. Það er full ástæða til að birta leiðara Morgunblaðsins á Friðarvefnum og vonum við að ritstjórinn taki því vel. Leiðari Morgunblaðsins 7. mars 2007: Röng ákvörðun Það er röng ákvörðun hjá utanríkisráðherra að senda fleiri Íslendinga til Afganistans. Samtals á að senda fjóra Íslendinga til landsins til viðbótar við þá, sem fyrir eru. Þetta er röng ákvörðun í grundvallaratriðum. Í Afganistan er háð ógeðslegt stríð. Við Íslendingar erum formlegir aðilar að því stríði vegna þess, að við höfum sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu samþykkt, að bandalagið sendi þangað herlið. Ekki er vitað til að við höfum sett nokkra fyrirvara fyrir þeirri ákvörðun af okkar hálfu. Við höfum haft uppi tilburði til að senda fólk til Afganistans á undanförnum árum, væntanlega vegna aðildar okkar að stríðinu við talíbana. Við höfum engan her. Við höfum engar hernaðarhefðir. Við erum blautir á bak við eyrun við slíkar aðstæður eins og reynslan hefur sýnt. Það er fráleit ákvörðun að fjölga Íslendingum í Afganistan. Nær væri að kalla þá alla heim. Og eðlilegast væri að fram færi opinber rannsókn á athöfnum okkar í Afganistan svo að þjóðin hafi það á hreinu hvað hefur gerzt. Höfum við verið menn til að greiða fjölskyldu 12 ára gamallar afganskrar stúlku, sem dó vegna aðgæzluleysis fulltrúa Íslands, bætur? Hefur það verið gert? Er ekki kominn tími til að utanríkisráðuneytið upplýsi Alþingi og almenning um það, hvers vegna Geir H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra, kallaði jeppasveitirnar heim á sínum tíma? Er ekki kominn tími til að upplýsa hver vopnabúnaður þeirra var? Hvernig stendur á því að eitt ráðuneyti getur falið slíkar upplýsingar fyrir Alþingi Íslendinga? Innan Atlantshafsbandalagsins standa yfir harðvítugar deilur á milli Bandaríkjamanna og margra aðildarríkja þess vegna þess, að þau ríki vilja ekki senda hermenn sína til Afganistans og vilja kalla heim þá hermenn, sem þar eru fyrir. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur leyft sér að skipta aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins í tvo hópa, þá sem sinna kalli þeirra um fleiri hermenn til Afganistans vegna þess að þeir hafa ekki sjálfir yfir fleiri hermönnum að ráða og hina sem sinna því kalli ekki. Það er fróðlegt fyrir þau ríki, sem átt hafa aðild að Atlantshafsbandalaginu frá árinu 1949, að upplifa slíka tvískiptingu. Þau færðu öll fórnir á tímum kalda stríðsins, þar á meðal við. Fórn okkar var sú, að fallast á að bandarískt herlið væri á Íslandi í hálfa öld. Það var ekki lítil fórn. Ákvörðun, sem skipti íslenzku þjóðinni í tvær fylkingar allan þann tíma. Það er röng stefna í grundvallaratriðum að senda Íslendinga á svæði þar sem styrjaldarátök standa yfir. Við kunnum ekki að starfa á slíkum svæðum. Það sem við kunnum og getum er að hjálpa fátæku fólki víða um heim við að tryggja þeim aðgang að grundvallarþáttum, sem mannlegt líf byggist á. Við kunnum að útvega þeim vatn og setja upp brunna hér og þar. Við kunnum að byggja skóla. Við kunnum að skipuleggja skólastarf. Við kunnum að byggja upp heilsugæzlu við erfiðar aðstæður. Þetta kunnum við og þetta eigum við að gera. Þetta á að vera sú grundvallarstefna, sem starf svonefndra friðargæzluliða byggist á. Getur það verið að einhverjum þyki þetta ekki nógu fínt? Er þetta ekki nógu spennandi? Geta íslenzkir ráðherrar ekki baðað sig í sviðsljósinu, með stóru strákunum, sem eru að reka stríð út um allan heim, ef fulltrúar Íslands eru við jafn lítilmótleg verk og að tryggja fátæku fólki aðgang að vatni? Hvernig stendur á því, að á Alþingi Íslendinga hafa ekki farið fram grundvallarumræður um þessi mál, sem geta leitt til stefnumörkunar í grundvallaratriðum í þessum efnum? Við sendum menn til Afganistans. Við köllum fólk heim frá Afganistan. Þetta er allt hálfkák af okkar hálfu enda kunnum við ekki til verka. Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær í tilefni af hinni nýju ákvörðun um að fjölga fólki í Afganistan: „Það er búið að skoða öryggismálin mjög vandlega. Borgaralegir starfsmenn eru ekki sendir á svæðið nema mat á öryggismálum hafi farið fram.“ Það væri gagnlegt fyrir hinn nýja upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins að kynna sér yfirlýsingu ráðuneytisins frá þeim tíma, þegar ákveðið var að senda Íslending á græna svæðið í Bagdað. Það var allt svo öruggt á græna svæðinu í þeirri borg. Annað kom í ljós nokkru síðar og utanríkisráðherra tók þá skynsamlegu og réttu ákvörðun að kalla þann starfsmann heim. Vonandi eiga tilgreind ummæli ekki eftir að sækja upplýsingafulltrúann heim eins og þá gerðist. Nú er utanríkisráðherra okkar á leið í kynnisferð til Afganistans. Til hvers? Hverra hagsmuna eigum við að gæta þar, sem kalla á slíka heimsókn? Engra annarra en þeirra að þar eru útsendir fulltrúar utanríkisráðuneytisins, sem kalla ætti heim þegar í stað. Hvers vegna er ráðherrann þá að fara í heimsókn til Afganistans? Ráðherrann er að fara vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum, sem þrýsta nú á önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins um að senda fólk til Afganistans. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að Ingibjörg Sólrún yrði leikbrúða Bandaríkjamanna, en það verður hún í ferð sinni til Afganistans. Allt snýst þetta um grundvallarþætti í utanríkismálum okkar á nýrri öld við breyttar aðstæður. En um þau grundvallaratriði fást engar umræður, hvorki á Alþingi né annars staðar. Hvers vegna ekki? Og meðal annarra orða: Hvað skyldi Samfylkingarfólk segja um stríðsleik Ingibjargar Sólrúnar?!

Færslur

SHA_forsida_top

Ályktun um uppsögn varnarsamningsins

Ályktun um uppsögn varnarsamningsins

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga haldinn 12. september 2020 áréttar nauðsyn þess að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna …

SHA_forsida_top

Landsfundur SHA 12. september

Landsfundur SHA 12. september

Að öllu jöfnu hefði landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verið haldinn í marsmánuði en vegna heimsfaraldurs varð …

SHA_forsida_top

Kertafleyting 2020

Kertafleyting 2020

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Allt …

SHA_forsida_top

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar …

SHA_forsida_top

Her­væðing lög­reglunnar

Her­væðing lög­reglunnar

Þeir sem eitthvað hafa fylgst með í fréttum og samfélagsmiðlum ættu að vera meðvitaðir …

SHA_forsida_top

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

Bandarísk stjórnvöld hafa aflétt leynd af ýmsum skjölum sem varpa ljósi á Kalda stríðið. Þar …

SHA_forsida_top

Maímálsverður

Maímálsverður

Eftir nokkurt hlé hefjast fjáröflunarmálsverðir SHA í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 á nýjan leik. Fyllsta öryggis …

SHA_forsida_top

English

English

  Campaign Against Militarism Icelanders have opposed military activities and NATO since …

SHA_forsida_top

Hvað gerðist á meðan við litum undan?

Hvað gerðist á meðan við litum undan?

Staða mála í Miðausturlöndum í skugga Covid. Samtök hernaðarandstæðinga efna til fundar um spennu- og …

SHA_forsida_top

Hernaðarbrölt í heimsfaraldri

Hernaðarbrölt í heimsfaraldri

Á miðvikudaginn sendi Trump Bandaríkjaforseti herafla til Karabíska hafsins í framhaldi af ákæru á …

SHA_forsida_top

Martyn Lowe um lögreglunjósnara

Martyn Lowe um lögreglunjósnara

Um árabil hafa lögreglumenn villt á sér heimildir sem aðgerðasinnar og njósnað um baráttusamtök í …

SHA_forsida_top

Landsfundi frestað, hætt við marsmálsverð

Landsfundi frestað, hætt við marsmálsverð

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fundaði í gær. Í ljósi yfirstandandi faraldurs var ákveðið að fjáröflunarmálsverður Friðarhúss …

SHA_forsida_top

Höfnum stríði við Íran

Höfnum stríði við Íran

Laugardagurinn 25. janúar var helgaður alþjóðlegum mótmælum gegn stríði við Íran. Spennuna á milli …

SHA_forsida_top

Janúarmálsverður í Friðarhúsi

Janúarmálsverður í Friðarhúsi

Bræðurnir Friðrik Atlason og Gísli Hrafn Atlason sjá um janúarmálsverð friðarhúss. Í boði verður kjúklingagúmmelaði …

SHA_forsida_top

Ávarp Drífu Snædal á Þorláksmessu

Ávarp Drífu Snædal á Þorláksmessu

Kæru friðarsinnar, Friður og lýðræði eru í mínum huga nánar systur og verða ekki …