BREYTA

Lærdómurinn af Hiroshima

Stjörnufræðingurinn Þorsteinn Sæmundsson ritar grein í Morgunblaðið þann 8. nóvember þar sem hann veltir því fyrir sér hvort íslenskir friðarsinnar, sem minnast ár hvert kjarnorkuárásanna á Japan árið 1945, séu nægilega upplýstir um söguna. Óhætt er að róa fræðimanninn með því að fólkið sem gagnrýnir þennan stærsta einstaka stríðsglæp allra tíma er upp til hópa prýðisvel að sér í sagnfræði. Áætlað er að yfir 200 þúsund manns hafi farist í kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki, en að auki lést fjöldi fólks síðar af sárum sínum eða úr sjúkdómum af völdum geislavirkni. Þrátt fyrir ólýsanlegan hrylling og blóðbað síðari heimsstyrjaldarinnar komust engar stakar árásir stríðsins í hálfkvisti við þessa atburði. Fyrstu viðbrögð bandarískra ráðamanna og fjölmiðla við árásunum einkenndust af hefndarþorsta. Eyðing borganna tveggja var að margra mati réttmæt refsing fyrir framgöngu Japana í stríðinu og óteljandi ódæðisverk þeirra. Ekki leið þó á löngu uns stjórnvöld í Washington áttuðu sig á afleiðingum gjörða sinna og hófu í kjölfarið að réttlæta árásirnar, ekki sem hefnd heldur sem óhjákvæmilega aðgerð sem ákveðin var með þungum huga. Henry Stimson, fyrrum varnarmálaráðherra BNA, ritaði snemma árs 1947 grein um hvernig ákvörðunin um að varpa kjarnorkusprengjunum hefði verið tekin. Í skrifum Stimson, sem oft er vitnað til, kom fram sú skoðun að árásirnar hefðu í raun bjargað mun fleiri mannslífum, þar sem reynt var að áætla mannfall ef til innrásar Bandaríkjahers á Japan hefði komið. Þessi túlkun er fyrirferðarmikil í grein Þorsteins. Sagnfræðingar hafa fundið ýmsar veilur á þessari röksemdafærslu. Bent hefur verið á að það jaðri við rasísk viðhorf að fjalla um Japani sem óseðjandi stríðsvélar sem berðust út í rauðan dauðann óháð allri skynsemi. Heimildir í skjalasöfnum hafa leitt í ljós að Japanir voru á barmi uppgjafar fyrstu daga ágústmánaðar 1945. Þar skipti mestu máli yfirvofandi þátttaka Sovétmanna í stríðinu, en stjórninni í Tókýó leist enn verr á tilhugsunina um sovéskt hernámslið en bandarískt. Einnig má leiða líkum að því að Bandaríkjamönnum hafi verið mikið í mun að ljúka stríðinu áður en Sovétmenn blönduðu sér í leikinn fyrir alvöru, til að losna við þá frá friðarsamningaborðinu. Eftir á að hyggja er ljóst að það sem öðru fremur seinkaði uppgjöf japanska hersins voru kröfur Bandaríkjamanna um afsögn keisarans. Slík skilyrði höfðu verið sett gagnvart evrópskum andstæðingum Bandamanna, en í Japan hafði keisarinn hálfguðlega stöðu. Þegar á hólminn var komið féllust Bandaríkjamenn á að keisarinn héldi völdum, en líklega hefði mátt ljúka styrjöldinni mun fyrr ef sú afstaða hefði legið fyrir. En úr því að uppgjöf Japana var á næsta leyti, hvers vegna kaus þá Truman-stjórnin að beita þessu skelfilega vopni? Svarið við þeirri spurningu er margþætt. Í fyrsta lagi þyrsti marga Bandaríkjamenn í hefndir. Stríðsglæpir japanska hersins voru ærnir og litu ýmsir svo á að með þeim hefðu þeir fyrirgert öllum rétti sínum þannig að sjálfsagt væri að víkja til hliðar alþjóðalögum á borð við Genfarsáttmálann. Nokkuð eimir af því viðhorfi í fyrrnefndri grein Þorsteins. Í annan stað hafði Manhattan-áætlunin við þróun kjarnorkusprengjunnar kostað svimandi fjárhæðir. Hætt var við því að einhverjir kynnu að setja spurningamerki við þá stjórnvísi að hafa eytt öllum þessum fjármunum, tíma og orku í miðri heimsstyrjöld til að þróa vopn sem ekki hefði verið nýtt í stríðinu sjálfu. Hefðu ekki vaknað spurningar eftir á um hvort sigur hefði unnist miklu fyrr en peningunum hefði ekki verið sóað í vítisvél sem ekki stóð til að nota í raun og veru? Í þriðja lagi er um margt rökréttara að líta ekki aðeins á sprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki sem þær síðustu sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni, heldur ekki síður sem þær fyrstu í nýrri styrjöld: Kalda stríðinu. Vitað er að Hiroshima varð ekki fyrir valinu sem skotmark vegna hernaðarlegs mikilvægis borgarinnar, raunar þvert á móti. Lítið hernaðarlegt gildi hennar gerði það að verkum að borgin hafði ekki orðið fyrir viðlíka árásum og aðrar japanskar borgir og var því með heillegasta móti. Skotmarkið var valið til að sýna fram á hámarkseyðileggingu, ekki sigruðum Japönum heldur verðandi fjendum – Sovétmönnum. Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki voru kaldrifjaðir stríðsglæpir sem framdir voru til að senda skýr skilaboð um hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna. Niðurstaðan varð vopnakapphlaup sem enn sér ekki fyrir endann á. Af þessu kapphlaupi hefur leitt að gerð kjarnorkuvopna hefur orðið sífellt einfaldari og ódýrari. Það sem einu sinni var bara á færi öflugustu risavelda með herskörum vísindamanna hefur nú verið leikið eftir af snauðum útlagaríkjum á borð við Norður-Kóreu. Það er hin ömurlega arfleifð glæpaverksins í Hiroshima fyrir rúmum þremur aldarfjórðungum. Stefán Pálsson Greinin birtist áður í Morgunblaðinu

Færslur

SHA_forsida_top

Ályktanir landsfundar SHA 2022

Ályktanir landsfundar SHA 2022

Ísland úr Nató! Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022, minnir á kröfuna …

SHA_forsida_top

Rýr svör við spurningum um sprengjuþotur

Rýr svör við spurningum um sprengjuþotur

Í Dagfara síðasta haust var fjallað um viðveru B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og …

SHA_forsida_top

Marsmálsverður

Marsmálsverður

Fjáröflunarmálsverðir SHA eru komnir á fulla ferð eftir Covid-truflanir síðustu missera. Að þessu sinni …

SHA_forsida_top

Landsfundur SHA 2022

Landsfundur SHA 2022

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verður haldinn í Friðarhúsi laugardaginn 2. apríl kl. 11. Fundurinn …

SHA_forsida_top

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í morgun og gæti …

SHA_forsida_top

Febrúarmálsverður hernaðarandstæðinga

Febrúarmálsverður hernaðarandstæðinga

Fjáröflunarmálsverður SHA er snúinn aftur nú þegar aðstæður leyfa. Miðnefndarmeðlimirnir Þorvaldur og Lóa sjá …

SHA_forsida_top

Er að byrja stríð? - Staða mála í Úkraínu

Er að byrja stríð? - Staða mála í Úkraínu

Friðvikudagar eru aftur komnir af stað með hækkandi sól. Daglega berast fréttir af …

SHA_forsida_top

Ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga á Þorláksmessu

Ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga á Þorláksmessu

Frá árinu 1980 hafa andstæðingar stríðs og vígbúnaðar efnt til friðargöngu á Þorláksmessu. Þar hefur …

SHA_forsida_top

Bréf til þingheims

Bréf til þingheims

Eftirfarandi bréf var sent á nýkjörna þingmenn í desember til að kynna okkar málstað: …

SHA_forsida_top

Friðargangan fellur niður í annað sinn

Friðargangan fellur niður í annað sinn

Kæri hernaðarandstæðingur Friðarganga á Þorláksmessu var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og hélst sú …

SHA_forsida_top

Hætt við fullveldisfögnuð SHA

Hætt við fullveldisfögnuð SHA

Líklega kemur það fáum á óvart, en vegna samkomutakmarkanna er útilokað að halda fjölmenna mannfögnuði …

SHA_forsida_top

Lærdómurinn af Hiroshima

Lærdómurinn af Hiroshima

Stjörnufræðingurinn Þorsteinn Sæmundsson ritar grein í Morgunblaðið þann 8. nóvember þar sem hann veltir því …

SHA_forsida_top

Fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins vegna B-2 véla Bandaríkjahers

Fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins vegna B-2 véla Bandaríkjahers

Miðnefnd SHA samþykkti í byrjun mánaðar að senda eftirfarandi fyrirspurn á utanríkisráðuneytið vegna B-2 sprengjuþota …

SHA_forsida_top

Friðarmálsverður snýr aftur

Friðarmálsverður snýr aftur

Eftir langa bið snúa fjáröfnunarmálsverðir Friðarhús aftur. Föstudagskvöldið 24. september geta hernaðarandstæðingar komið …

SHA_forsida_top

Harmleikurinn í Afganistan og ábyrgð okkar

Harmleikurinn í Afganistan og ábyrgð okkar

Eftir tuttugu ára hersetu Bandaríkjanna og Nató er Afganistan aftur komið undir stjórn Talibana. Stjórnarherinn …