BREYTA

Ræða á kertafleytingu á Akureyri

Valgerður H. Bjarnadóttir trúarbragðafræðingur flutti ávarp á kertafleytingu á Akureyri fimmtudaginn 6. ágúst 2015. Kæru systur og bræður sjaldan hefur mér þótt jafn vandasamt að finna orð til að tjá mig, sjaldan hef ég fundið eins mikinn vanmátt og þegar ég var að undirbúa þessa litlu hugvekju.  Flest sem mér datt í hug fannst mér annað hvort klisjukennt eða prédikunarlegt, frammi fyrir þessu gífurlega verkefni. Að lokum komst ég að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að finna neitt verulega gott til að segja, sem ekki hefði verið sagt áður, betur. Þess vegna valdi ég að leita í smiðju annarra, en eins og oft vill gerast, fæðast hugmyndir af hugmyndum, orð af orðum. Stríð, þ.e. skipulagður hernaður eins hóps á hendur öðrum, hófst ekki í mannlegu samfélagi fyrr en fyrir 7500 árum. Það kann að þykja langur tími, en mannkynið er nokkurra milljóna ára og það sem við getum kallað menningarsamfélag er amk tugþúsunda ára, jafnvel hundrað þúsund ára, en þó finnast engar leifar eða vísbendingar um stríðsátök fyrr en fyrir 7500 árum í Evrópu og enn síðar í öðrum álfum. Fram að því virðist mannkynið hafa lifað í nokkurri sátt og jafnvægi ... milli kynja, milli hópa eða ættflokka og milli manneskju og náttúru. Það er hægt! Hér á landi höfum við verið svo heppin .. og kannski vitur.. að sleppa við stríð síðustu rúmar 7 aldir af þeim 11 sem við höfum búið hér, og reyndar var tími borgarastríðs á Íslandi skammur, svo mestan hluta þess tíma hefur hér ríkt friður. Það er hægt! Flest okkar sem hér eru samankomin eru svo heppin að hafa aldrei upplifað stríð og eru þá jafnframt laus við þá reynslu sem af slíku hlýst. Við erum þess vegna fáfróð og oft barnsleg eða fordómafull í afstöðu okkar til styrjalda.  En það getur haft sína kosti að horfa á heiminn með augum barnsins. Sjálf er ég einlæglega og alltaf á móti því að við beitum ofbeldi til að ná fram vilja okkar. Sumum kann að þykja það einfeldningslegt, og víst er að í mér blundar reið ofbeldismanneskja, engu síður en hjá öðrum, en ég er sannfærð um að það er alltaf hægt að finna aðrar leiðir til að leysa hvern vanda. Ég er reyndar ákveðið þeirrar skoðunar að stríð og annað ofbeldi leysi aldrei vanda, auki hann alltaf.  Sárin og örin sem stríð valda gróa seint, það hleypur í þau illska og hún verður undirrót nýrra stríða, inn á við hjá hverjum einstaklingi, hverri þjóð eða þjóðarbroti og milli þjóða eða fylkinga. Í dag er heimurinn stríðshrjáðari en líklega nokkru sinni fyrr og stríðin eru háð á ýmsum vígstöðvum, sumum sýnilegum, öðrum mjög duldum. Aldrei hafa fleiri þrælar verið á jörðinni en nú, við göngum í fötum og borðum af diskum gerðum af þrælum, en þeir eru fjarlægir og við ákveðum að það komi okkur ekki við. Aldrei hafa auðvalds- og markaðsöflin, vopnaframleiðendur og þeir sem sljóvga vitund okkar, stjórnað eins miklu og nú og kúgað eins fólskulega og nú, og stöðugt berast okkur fréttir af óhugnaðinum öllum, en við höldum fyrir eyrun, lokum augum og klemmum saman varirnar í þöggun. Ég er svo heppin að fá þessa dagana að starfa á heimili skálds sem var einlægur andstæðingur stríðs. Davíð Stefánsson lifði tvær heimsstyrjaldir. Hann var í Danmörku á fyrri stríðsárunum og ferðaðist um Evrópu í kjölfar þess stríðs, og átti nána vini í andspyrnuhreyfingu Norðmanna í seinni heimsstyrjöldinni.  Í ljóðum sínum verður honum því tíðrætt um stríð og frið.  Fáa þekki ég sem orða tilveruna betur en Davíð, og þess vegna ætla ég lesa fyrir ykkur ljóð sem hann samdi í kjölfar seinni heimsstyraldarinnar. Hann beinir athyglinni að vopnaframleiðendum og ábyrgð okkar allra á að taka eftir hættumerkjum, taka þátt í þróun samfélaganna og endursköpun friðarsamfélags, menningar sem byggir á frelsi og skapar frelsi. Ljóðið heitir Sverðið og er m.a. myndlíking fyrir þann brand sem brenndi manneskjur og Móður Jörð í Hiroshima og Nagasaki fyrir 70 árum. Hann kann að hafa ort ljóðið einmitt þá, í kjölfar hörmunganna, en það birtist 1947 í Ný kvæðabók. Í gær var sýnd mynd á RÚV sem rekur blekkinguna og hryllinginn í þeirri sögu allri og minnir okkur á að hafa öll skilningarvit opin, alltaf.  Nú á heimurinn, með öllum sínum endurbornu Hitlerum, Trumönnum, Hirohitoum, Stalínum og Churchillum, ógnvænlegt forðabúr af "sverðum" af ótrúlegustu gerðum og enn er framleitt og grætt. En áður en ég tala úr okkur allan kjark, vil ég minna á það sem Margaret Mead sagði einhverju sinni. Hún sagði eitthvað á þessa leið:  "Efastu aldrei um að lítill hópur hugsjónafólks geti breytt heiminum, í raun er það alltaf þannig sem það gerist."  Við berum öll ábyrgð og við skulum axla hana hvert á okkar hátt. Sverðið eftir Davíð Stefánsson Vor jörð var af nöktum numin en neyðin kenndi þeim fljótt að fæðan og skinnin skyldu til skógardýranna sótt. Af kynnum við þau og klakann varð kynslóðin hraust og sterk, og eldinn kveikti hún árið, sem andinn hóf kraftaverk.   Þá hýrnaði heimur allur, þá hlýnaði móður jörð, þá reistu menn bjálkabýli, og bóndinn eignaðist hjörð, og lítið var látið nægja, en lífinu enginn kveið, uns ágirnd og heiftarhugur hófu sitt valdaskeið.   Með auðsæld og eignaráni þvarr ástúð og bræðraþel. Því færri sem frelsið virtu, því fleiri sultu í hel. Einn var til óðals borinn, við öðrum gein þrotlaus ferð. Loks smíðaði misklíð manna hið mikla, drottnandi sverð.   II Aldir og ár hafa runnið, og ennþá er jörðin byggð, ennþá er sverðsins saga hin sigrandi viðurstyggð. Það vofði yfir veröld allri og vélaði hrjáðan lýð, sem laut þess lögum og valdi, og loks hófst síðasta stríð.   Þung eins og dauðadómur er drápan um heift og svik. Hamingja heilla þjóða var hlekkjuð og grafin kvik. Loftið var dimmt af drekum, um djúpin var kafbát rennt. Eldregnið dundi yfir - og enn er drepið og brennt.   III Á undan aftakaveðrum er útsýnin þoku byrgð. Við þögðum og úlfinn ólum á athafnalausri kyrrð. En enginn gat loddarans leikni með lævísi meiri beitt. Við hlýddum á hróp og ógnir, en hugsuðum ekki neitt.   Við erum seinir til svifa og sátum of lengi hjá og létum lygarann plægja og landráðamanninn sá. Við sáum daggirnar drjúpa af dauðans ógnandi skálm en starf okkar allt og stefna var stofubúanna fálm.   Við rituðum blöð og bækur, en bætti það dauðlegt kyn? Margur lét myrkrið ráða, en mundi þó dagsins skin. Og er ekki guðlaus glæpur að gefa hugsunum mál, sem blinda borgarans augu og blekkja þjóðanna sál?   Vor list í litum og tónum var lægstu hvötunum trú og reyndi að auðga með öfgum sín andlegu þrotabú. Og margir skenktu á skálar í skauti líðandi dags og biðu með bros á vörum hins blóðuga sólarlags.   Hver stélprúður stjórnmálahani leit stórt á sinn öskuhaug, en heima hímdu þeir lærðu með háskólans geislabaug. Og klerkarnir fræddu fólkið um fallegar stjörnur og blóm. En vopnasalarnir seldu, uns sölubúðin var tóm.   Þeir rægja ríki og þjóðir. Þeir rista saklausum níð. En vopn eru gerð til víga. Vopnunum fylgir stríð. Er nokkur atvinnu önnur jafneitruð og lastafull og sá hinum eyðandi eldi, en uppskera - blóð og gull?   IV Sigur? Var sigur unninn? Er sagan að fullu skráð? Er enginn, sem ennþá hyggur á uppreisn og svikaráð? Vor öld er hávær og hortug, en hefur af litlu að má og verkin bera því vitni, hvert vegurinn síðast lá.   Enn eru viðsjár víða og vélráðin grímuklædd. Marga svíður í sárin, og sum verða aldrei grædd. Við siglum sökkvandi skipum og sum koma aldrei í höfn. Við tignum tilbúna guði og trúum á mannanöfn.   Enn vinna þjáðar þjóðir að þrotlausri vopnagerð. Milljónir manna heillar hið mikla, drottnandi sverð. Enn eru fangar í fjötrum og fólk sem biður um grið. Það voru æskunnar örlög að erfa - vopnaðan frið.   V Sú kynslóð mun glæpsins gjalda, þó glópskan sé erfðaforn, sem myrðir sinn besta bróður og brennir sitt eigið korn. Ef helgustu heit eru svikin, en hégómans loforð efnd, er syndin sjálfskaparvíti og sorgin - réttlát hefnd.   Og getur sá vænst að verða virtur að lokinni ferð, sem kýs, að krjúpandi þjóðir kyssi hans níðingssverð? Ef skynsemi sköpum ræður, er skylda hvers einasta manns að mola vígtennur vargsins og verstu yrðlinga hans.   Ef friða skal fornar byggðir og frelsa vorn helgidóm, þarf önnur og kröftugri kvæði en kvak um stjörnur og blóm. Því enn eru brandar brýndir og barist um örlög tvenn. Er sögunni um sverðið lýkur, hefst sagan - um frjálsa menn.

Færslur

Kænugarður eftir sprengjuregn Rússa

Stöðvið stríðið í Úkraínu strax - semjið um frið og sam­vinnu í Evrópu

Stöðvið stríðið í Úkraínu strax - semjið um frið og sam­vinnu í Evrópu

Við undirritaðir friðarsinnar á Íslandi skorum á leiðtoga evrópskra ríkja að stöðva stríðið í Úkraínu …

kertafleyting_2014

Dorgað fyrir friði! – Lítil þúfa veltir þungu hlassi

Dorgað fyrir friði! – Lítil þúfa veltir þungu hlassi

Leiðtogar Evrópuráðsins koma saman í Reykjavík á sama tíma og blóðugt stríð fer fram í …

1.-maí-kaffi-2

1. maí kaffi SHA 2023

1. maí kaffi SHA 2023

Hitið upp fyrir kröfugönguna með hinu hefðbundna og einkar veglega 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga …

SHA_forsida_top

Aprílmálsverður hernaðarandstæðinga

Aprílmálsverður hernaðarandstæðinga

Aprílmálsverður hernaðarandstæðinga föstudaginn 28. apríl verður glæsilegur að þessu sinni. Daníel E. Arnarson er frábær …

USA-Rússland

Ályktun miðnefndar SHA gegn þjónustu við kjarnorkukafbáta

Ályktun miðnefndar SHA gegn þjónustu við kjarnorkukafbáta

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega þeirri ákvörðun utanríkisráðherra að auka þátttöku Íslands í hernaðarstarfsemi með …

SHA_forsida_top

Ný miðnefnd tekur til starfa

Ný miðnefnd tekur til starfa

Það var vel mætt á landsfund og málsverð …

SHA_forsida_top

Ályktun landsfundar: Ísland úr Nató – sem aldrei fyrr!

Ályktun landsfundar: Ísland úr Nató – sem aldrei fyrr!

Stríðið í Úkraínu hefur reynst vatn á myllu hernaðarsinna og þeirra afla sem telja að …

SHA_forsida_top

Ályktun landsfundar um tafarlausan frið í Úkraínu

Ályktun landsfundar um tafarlausan frið í Úkraínu

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að samið verði um vopnahlé í stríðinu í Úkraínu án …

SHA_forsida_top

Marsfjáröflunar-málsverður SHA

Marsfjáröflunar-málsverður SHA

Föstudaginn 31. mars verður fjáröflunarmálsverður SHA haldinn í Friðarhúsi og um leið verður landsfundur samtakanna …

SHA_forsida_top

Landsfundur SHA - 1. apríl

Landsfundur SHA - 1. apríl

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 1. apríl. Dagskrá hefst kl. 11 …

SHA_forsida_top

Stríðsglæpirnir og dómstóllinn

Stríðsglæpirnir og dómstóllinn

Í tengslum við yfirstandandi stríð í Úkraínu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að …

SHA_forsida_top

Febrúarmálsverður Friðarhúss

Febrúarmálsverður Friðarhúss

Fjáröflunarmálsverður SHA í Friðarhúsi verður að venju síðasta föstudagskvöld í mánuðinum, 24. febrúar að …

SHA_forsida_top

Stöðvum stríðið í Úkraínu!

Stöðvum stríðið í Úkraínu!

Mótmælum innrás Rússa í Úkraínu og krefjumst tafarlauss friðar. Mótmæli við rússneska sendiherrabústaðinn, Túngötu 24, …

SHA_forsida_top

Birtingar­mynd sturlunar

Birtingar­mynd sturlunar

Hlutverk Íslendinga er að bera klæði á vopnin Fyrir um þremur áratugum …

Herfer1

Sjöundi áratugurinn gengur aftur á Safnanótt

Sjöundi áratugurinn gengur aftur á Safnanótt

Sjöundi áratugurinn gengur aftur: Mótmælagöngur og aðgerðir 1960-69 í Friðarhúsi föstudaginn 3. febrúar kl. 18:00-23:00. …