BREYTA

Yfirlýsing CND um kjarnorkuáætlun Írana

imagesstopwaroniran vert Bresku friðarsamtökin Campaign for Nuclear Disarmament (CND) sendu frá sér yfirlýsingu 10. apríl síðastliðinn varðandi kjarnorkudeiluna við Íran. Þar hvetja samtökin alþjóðasamfélagið til að beita sér gegn því að Bandaríkin geri innrás í Íran og sér í lagi beina þau orðum sínum til bresku ríkisstjórnarinnar. Það er ástæða til að hvetja ríkisstjórn Íslands til að beita áhrifum sínum. Þau lönd sem fylgdu Bandaríkjunum að málum gagnvart Írak bera nú sérstaka ábyrgð, þar sem ætla má að rödd þeirra geti haft einhver áhrif á Bandaríkin. Í yfirlýsingunni er gerð góð grein fyrir eðli þessa máls og því höfum við þýtt hana og birtum hér að neðan. Fyrir þremur árum fylgdi Bretland Bandaríkjunum eftir í innrás í Írak á grundvelli ásakana, sem reyndust rangar, um að Írak hefði gjöreyðingarvopn í fórum sínum. Nú horfum við upp á sambærilegar ásakanir á hendur Íran þar sem Bandaríkjastjórn heldur því fram að í kjarnorkuáætlun Írans felist áætlanir um að þróa kjarnorkuvopn. Er einhver grundvöllur fyrir þessum ásökunum eða er verið að spinna upp réttlætingu fyrir ólöglegri árás á Íran? Ein helsta ásökunin á hendur írönsku stjórninni er að hún brjóti gegn NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, en Íran á aðild að honum. Þess vegna er mikilvægt að vita hvað nákvæmlega stendur í þessum samningi. Fjórða greinin er lykilatriði, en hún fjallar um réttinn til að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Þar stendur eftirfarandi:
1. Ekkert í þessum samningi skal túlka þannig, að það breyti óhagganlegum rétti allra samningsaðila til þess, án mismununar og í samræmi við fyrstu og aðra grein þessa samnings, að efla rannsóknir, framleiðslu og notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. 2. Allir samingsaðilar skuldbinda sig til að auðvelda, og eiga rétt á að taka þátt í, sem allra víðtækustum skiptum á tækjum, efni og vísinda- og tæknilegum upplýsingum fyrir friðsamlega notkun kjarnorku. Samningsaðilar, sem eru í aðstöðu til þess, skulu einnig vinna að því, sér í lagi eða ásamt öðrum ríkjum eða alþjóðastofnunum, að efla frekari þróun kjarnorkunotkunar í friðsamlegum tilgangi, sérstaklega á landsvæðum kjarnavopnalausra ríkja, með réttu tilliti til þarfa þróunarsvæða heimsbyggðarinnar.
Fyrsta og önnur grein samningsins banna flutning kjarnorkuvopna milli kjarnorkuvopnaríkja og kjarnorkuvopnalausra ríkja. Það er ljóst, að samkvæmt NPT-samningum er Íran leyfilegt að þróa kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Meira en 40 ríki hafa nýtt sér þennan rétt á undanförnum áratugum og mikill meirihluti þeirra á ekki kjarnorkuvopn. Engu að síður er eðlilegt að vera á varðbergi þar sem náin tengsl eru milli ferlisins við framleiðslu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi annarsvegar og kjarnorkuvopna hinsvegar, sem sagt auðgun úrans. Þar er samt ekki um að ræða nein sjálfvirk eða bein tengsl af því að það þarf miklu minna af auðguðu úrani til framleiðslu kjarnorku en til framleiðslu kjarnorkuvopna eða 3% á móti 90%. En vegna þessara nánu tengsla og vegna þess að þróun frá kjarnorkuframleiðslu til framleiðslu kjarnorkuvopna er möguleg, þá kveður NPT-sáttmálinn á um ákveðin öryggisákvæði. Þau er tilgreind í þriðju grein sáttmálans:
1. Sérhvert kjarnavopnalaust ríki, sem er samningsaðili, skuldbindur sig til að fara eftir öryggisákvæðum, sem sett verða fram í samkomulagi, sem samið verður um og gert verður við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina í samræmi við stofnskrá Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og öryggiskerfi stofnunarinnar, til þess eingöngu að sannprófa, hvort það hefur uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi, er miða að því að koma í veg fyrir, að kjarnorku verði veitt frá friðsamlegri notkun til kjarnavopna eða annarra kjarnasprengjutækja. Öryggisreglum þeim, sem krafist er í þessari grein, skal fylgt að því er varðar vinnsluefni eða sérstakt kjarnkleyft efni, hvort heldur er við framleiðslu, umbreytingu eða notkun þess í öllum helztu kjarnorkustöðvum eða þegar það er utan við slíka stöð. Öryggisákvæðin, sem krafizt er í þessari grein, eiga að ná til alls vinnsluefnis eða sérstaks kjarnkleyfs efnis við alla friðsamlega notkun kjarnorku á landssvæði slíks ríkis, í lögsögu þess eða hvar sem er undir stjórn þess. Þannig kveður þriðja greinin á um að aðildarríkin verði að fallast á öryggisákvæði Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, en samkvæmt þeim má sannreyna að kjarnorkuframleiðsla sé ekki nýtt til þróunar kjarnorkuvopna. Hér er það sem Íran hefur ekki staðið sig og með því gefið ástæðu til gagnrýni og áhyggna. Fyrir 2003 veitti Íran Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni ekki fullan aðgang að öllum þeim stöðum þar sem kjarnorkuframleiðsla eða þróun hennar fór fram eins og kveðið er á um í samningum um öryggisákvæði. Þeir staðir, sem ekki var hægt að gefa skýrslur um, voru Jabr Ibn Hayan rannsóknarstöðin í Teheran, Esfahan eldsneytisauðgunarstöðin, Natanz eldsneytisauðgunarstöðin og Arak Iran tilraunakjarnorkuverið.
Þær ásaknanir, sem nú eru bornar á hendur írönsku stjórninni, eru byggðar á þessum gömlu syndum og þótt hún hafi síðan gefið eftir hefur málið verið blásið enn frekar upp. En eru þau hörðu viðbrögð, sem sýnd eru núna, í einhverju samræmi við stöðuna eða réttlætanleg af henni? Satt að segja hafa allar ofangreindar kjarnorkustöðvar verið settar undir öryggisákvæði Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar eins og stofnunin hefur greint frá. Íran hefur líka samþykkt viðbótarreglur (Additional Protocols), en mörg ríki, sem eru með kjarnorkuframleiðslu, hafa ekki gert það. Þessar reglur veita meiri aðgang til eftirlits en öryggisreglurnar gera. Á undanförnum þremur árum hafa verið gerðar mjög miklar athuganir á kjarnorkustöðvum Írans og auk þess hefur Íran veitt aðgang að ýmsum hernaðarlegum stöðum og samt hefur ekkert fundist sem gefur tilefni til að ætla að Íran sé nú eða hafi verið með áætlanir um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Tregða íranskra stjórnvalda við að gefa upplýsingar um gerðir sínar fyrir 2003 hefur auðvitað veikt stöðu Írans og gefið tilefni til gagnrýni, og ekki hafa ógeðfelldar yfirlýsingar Ahmadinejads forseta nýlega um Ísraelsríki bætt úr skák. Kjarnorkuvopnaeign Ísraels, í trássi við margar ályktanir Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkuvopnalaus Miðausturlönd, veldur tvímælalaust aukinni spennu á svæðinu, en öfgafullar yfirlýsingar forsetans hafa aukið enn á vandann. Þar að auki ber það vott um mikla hræsni að bandarísk stjórnvöld líta fram hjá kjarnorkuvopnaeign Ísraels meðan þau beina spjótum sínum að Íran. Þessi tvískinnungur ýtir undir ótta um að Bandaríkin séu að spinna upp falskar ástæður til að skipta um stjórn í Íran í því skyni að ná tökum á hinum ríku orkulindum landsins. Í því skyni að endurheimta traust varðandi áætlanir sínar samþykkti Íran í nóvember 2004 – í viðræðum við Bretland, Frakkland og Þýskaland, ESB-löndin þrjú – að fresta tímabundið áætlunum sínum um auðgun úrans. Meðan á þessum fresti stæði var ætlunin að ESB-löndin þrjú kæmu með áætlanir um efnahagslega hvatningu og öryggistryggingar sem Íran fengi fyrir að láta vera að auðga sitt eigið úran. Málið er að Bandaríkin hafa gengið hart fram í, að Íran fái ekki fullt vald yfir öllu ferlinu í kjarnorkuframleiðslu sinni vegna möguleikans á að þróa það yfir í framleiðslu kjarnorkuvopna, og að auðgun úransins fari fram annarsstaðar. Á þessum loforðum urðu engar efndir og þar með hefur Íran hætt við að slá áætlunum sínum á frest og fullyrðir enn á ný, í samræmi við alþjóðalög og samninga, að ríkið hafi fullan rétt til að ráða yfir öllu ferlinu í kjarnorkuframleiðslu sinni, og að það muni fara eftir öryggisákvæðum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Rússland hefur átt í viðræðum við Íran um þann möguleika að Rússland taki að sér að sjá um auðgun úrans fyrir Íran að mestu leyti meðan Íran héldi eftir litlum hluta þessarar starfsemi. Svo virðist sem samkomulag þessa efnis hafi verið nánast í höfn milli þessara tveggja ríkja en Bandaríkin gátu jafnvel ekki sætt sig við auðgun úrans í litlum mæli og þar með var tilgangslaust að halda þessum viðræðum áfram. Afstaða Bandaríkjanna virðist vera að ekki eigi að „umbuna“ írönskum stjórnvöldum fyrir hversu ósamvinnuþýð þau hafa verið á liðnum árum með minnsta möguleika á að auðga úran. En samtímis því sem Bandaríkin taka afstöðu gagnvart Íran, sem virðist útiloka alla möguleika á samkomulagi, og viðurkenna ekki þá staðreynd að Íran hefur gengið lengra en formlega er krafist varðandi vopnaeftirlit, hefur forseti Bandaríkjanna gert mjög svo umdeilanlegan samning við Indland varðandi kjarnorkumál. Indland, sem hóf framleiðslu á kjarnorkuvopnum seint á tíunda áratug síðustu aldar, hefur ekki undirritað NPT-samninginn og er þess vegna ekki háð samningum um öryggisákvæði. Samingurinn tryggir samvinnu við Bandaríkin um framleiðslu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi en Indland heldur réttinum til að neita eftirlitsmönnum Bandaríkjanna um aðgang að kjarnakljúfum sínum sem geta framleitt úran fyrir kjarnorkusprengjur. Hér er aftur um að ræða tvískinnung hjá Bandaríkjunum sem hefur valdið miklum áhyggjum víða um heim en tilgangurinn er vaflaust að treysta böndin við hernaðarlega bandamenn í Asíu. Staðreyndin er að allt efni til kjarnorkuvinnslu í Íran, sem gerð hefur verið grein fyrir, hefur verið kannað og það hefur ekki verið þróað til framleiðslu kjarnorkuvopna. Sem stendur eru engar vísbendingar um að Íran sé með efni eða starfsemi til kjarnorkuframleiðslu sem ekki hefur verið gerð grein fyrir. Fyrri rannsóknir Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hjá kjarnorkuvopnalausum ríkjum, sem hafa vald yfir öllum þáttum kjarnorkuframleiðslu, hafa tekið allt að sex árum, þannig að það væri við hæfi að gefa tíma til vopnaleitar og samninga í stað þessa óvenjulega þrýstings og flýtis sem settur er gagnvart Íran, og sér í lagi þegar það er almennt viðurkennt að Íran á enn mörg ár í að geta framleitt kjarnorkuvopn, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að að því sé stefnt. Það er ekki auðvelt að horfa framhjá samsvöruninni við aðdraganda Íraksstíðsins þar sem vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðana fóru fram á meiri tíma til kannana en Bandaríkin höfnuðu því og kusu þess í stað að hraða ólöglegu stríði sem var réttlætt með innistæðulausum ásökunum. Heimurinn hefur undanfarin þrjú ár horft upp á hræðilegar afleiðingar þess stríðs. Alþjóðasamfélagið verður nú að vinna einarðlega að því að koma í veg fyrir árás á Íran og ríkisstjórn Bretlands verður að nýta sérstakt samband sitt við bandarísk stjórnvöld í því skyni. Ef þetta tekst ekki verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir Miðausturlönd og alla heimsbyggðina.

Færslur

SHA_forsida_top

Blóðugt ár í Írak

Blóðugt ár í Írak

Árið 2013 reyndist eitt það blóðugasta í Írak frá innrásinni í landið fyrir áratug síðan. …

SHA_forsida_top

29. mars og 5. apríl 2003 - Mótmæli við Stjórnarráðið

29. mars og 5. apríl 2003 - Mótmæli við Stjórnarráðið

Höfundur ljósmynda: Óli Gneisti Sóleyjarson This work is licensed under a Creative Commons Attribution-NonCommercial …

SHA_forsida_top

Óli Gneisti

Óli Gneisti

SHA_forsida_top

Ljósmyndir

Ljósmyndir

SHA_forsida_top

Austurvöllur eftir óeirðirnar 30. mars 1949 (Þjóðskjalasafn Íslands)

Austurvöllur eftir óeirðirnar 30. mars 1949 (Þjóðskjalasafn Íslands)

SHA_forsida_top

Friðarganga á Þorláksmessu

Friðarganga á Þorláksmessu

Á Þorláksmessu árið 1980 stóðu Samtök herstöðvaandstæðinga, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (MFÍK) og ýmsar …

SHA_forsida_top

Gengið til friðar í þrjátíu og fimm ár

Gengið til friðar í þrjátíu og fimm ár

Íslenskir friðarsinnar hafa efnt til friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu undanfarin þrjátíu og fimm ár. …

SHA_forsida_top

Shortcode Generator

Shortcode Generator

Nectar Shortcodes Come In a Visually Intuitive Generator This allows you to create …

SHA_forsida_top

Intuitive Options Panel

Intuitive Options Panel

The Control You Desire, All Available At Your Fingertips Experience our user …

SHA_forsida_top

HD Video Series

HD Video Series

Videos Get Posted For Every Major Release Stop feeling overwhelmed by long text …

SHA_forsida_top

Ályktun frá landsfundi

Ályktun frá landsfundi

Landsfundur SHA var haldinn um liðna helgi. Lögum félagsins var breytt á fundinum og verða …

SHA_forsida_top

Fullveldisfögnuður í Friðarhúsi

Fullveldisfögnuður í Friðarhúsi

Föstudagskvöldið 29. nóvember verður fjáröflunarmálsverður Friðarhúss haldinn, glæsilegur að vanda. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um …

SHA_forsida_top

Nató-kostnaður í fjölmiðlum

Nató-kostnaður í fjölmiðlum

Dagfari, tímarit Samtaka hernaðarandstæðinga er komið út og hefur verið sent félagsmönnum í SHA. Meðal …

SHA_forsida_top

Landsfundur SHA, laugardaginn 23. nóvember

Landsfundur SHA, laugardaginn 23. nóvember

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verður haldinn laugardaginn 23. nóvember n.k. í Friðarhúsi. Fundurinn hefst kl. 11 …

SHA_forsida_top

Njósnir og uppljóstranir! - SHA og MFÍK funda

Njósnir og uppljóstranir! - SHA og MFÍK funda

Sameiginlegur félagsfundur MFÍK og Samtaka hernaðarandstæðinga verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, miðvikudagskvöldið 13. nóvember …